Leikkonan Jennifer Grey lék Mindy í fyrstu þáttaröð í Friends en önnur leikkona fór með hlutverkið í næstu þáttaröð. Hún útskýrir ástæðuna í samtali við MediaVillage.
Jennifer Grey var ein skærasta stjarna níunda og tíunda áratugarins. Hún sló í gegn í Dirty Dancing árið 1987 og Ferris Bueller‘s Day Off árinu áður.
Árið 1995 fór hún með gestahlutverk í Friends – í fyrstu þáttröð, þætti 20 – sem Mindy, gömlu bestu vinkonu Rachel Green (Jennifer Aniston). Þegar kom að því að leika Mindy aftur í annarri þáttaröð hafnaði Jennifer boðinu og leikkonan Jana Marie Hupp tók við keflinu.
Grey segir að hún hafi verið mikill aðdáandi Friends en upplifun hennar á tökustað hafi orðið til þess að hún hafi neitað að koma aftur.
„Þegar ég lék í þættinum var ég svo kvíðin því þau voru alltaf að breyta handritinu. Það er mjög erfitt að vera í gestahlutverki því þú ert ekki hluti af hópnum og ert að reyna að átta þig á þessu öllu,“ sagði hún við MediaVillage.
„Þetta var alltaf að breytast og gerði mig svo stressaða að ég gat varla gert þetta.“
Leikkonan segir að frammistöðukvíðinn hafi orðið til þess að hún hafi hafnað boðinu um að leika Mindy í annarri þáttaröð og einnig að stjórna Saturday Night Live á svipuðum tíma. Hún viðurkennir að það geri hana leiða að vita til þess að hún hafi hafnað þessum tilboðum vegna kvíðans síns en á þeim tíma fékk hún ekki aðstoðina sem hún þurfti.
Í dag er hún á mikið betri stað og hefur lært inn á kvíðann.