Jörundur Áki Sveinsson, sviðsstjóri knattspyrnusviðs hjá KSÍ, eyddi miklum tíma með nýja landsliðsþjálfaranum Åge Hareide í síðustu viku.
Hareide var kynntur til leiks sem nýr þjálfari íslenska karlalandsliðsins á þriðjudag. Hann tekur við starfinu af Arnari Þór Viðarssyni.
Norðmaðurinn heillaði þjóðina og nýja samstarfsmenn sína hjá KSÍ upp úr skónum á dögunum hér. Svo hélt hann aftur heim til Noregs.
„Hann sendi mér mynd í gær. Þá var hann búinn að vera úti á sjó að veiða humar. Hann sendi mér mynd af aflanum“ sagði Jörundur í útvarpsþættinum Fótbolta.net á X-inu á laugardag.
Tómas Þór Þórðarson sló á létta strengi og spurði Jörund hvort hann og Hareide væru orðnir bestu vinir.
„Ég ætla ekki alveg svo djúpt í það en ég er búinn að eyða miklum tíma með honum í þessari viku. Það var margt sem hann þurfti að spá í og ég var honum til halds og trausts. Hann er viðkunnanlegur maður og gefur mikið af sér.“
Nú er Hareide á flakki að hitta íslenska landsliðsmenn og kynnast þeim fyrir komandi átök. Hann sagði frá þessu í viðtali við 433.is eftir að hann tók við í síðustu viku.
Það má sjá hér að neðan.
Einnig var rætt við Jörund Áka.