fbpx
Miðvikudagur 11.desember 2024
Fókus

„Það kom tímabil þar sem hún varð fyrir aðkasti bara af því að hún er dóttir mín“

Fókus
Mánudaginn 24. apríl 2023 12:30

Hlynur Jónsson/Instagram

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hlynur Jónsson, hótelstjóri og skemmtikraftur segist hafa verið kominn með annan fótinn í gröfina áður en hann fór í meðferð við áfengisfíkn. Í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar segist Hlynur hafa fundið nýtt líf eftir að hafa gefist algjörlega upp. Hann þakkar dóttur sinni fyrir að vera gjörbreyttur maður.

„Ég skrapaði botninn og kláraði allt saman. Hvort sem það var traust vina og fjölskyldu eða annað gott í lífinu. Ég var orðinn dagdrykkjumaður og var á endanum algjörlega búinn á líkama og sál. En ég þurfti að finna algjöran botn til þess að vera raunverulega tilbúinn að breytast. Það getur enginn annar sagt þér að fara í meðferð. Ef þú finnur það ekki hjá sjálfum þér er það ekki að fara að virka. Það tekur tíma að komast á þann stað að átta sig á því að það er engum öðrum að kenna hvert maður er kominn. Það var í raun dóttir mín sem bjargaði lífi mínu. Hún var drifkrafturinn minn í þessu ferli. Ég fann djúpt innra með mér að ég ætlaði ekki að bjóða henni upp á þetta úrhrak sem ég var orðinn. Ég var ekki lengur manneskja sem gat hugsað um hana, þannig að það var annað hvort að fara í gröfina eða gjörbreytast. Hún er prinsessan mín og ég lifi fyrir hana og hún hefur átt stærstan þátt í að ég er gjörbreyttur maður. En það var langt ferli að koma aftur inn í lífið sem ný manneskja og tímabilið eftir að áfengið fór úr kerfinu var mjög þungt og erfitt. Það að losna við áfengið sem slíkt var bara fyrsta skrefið. Vogur er bara þurrkun, en svo tekur við vinnan við að mæta því sem var ástæðan fyrir drykkjunni. Þá tók við tímabil af miklu þunglyndi, gremju, samviskubiti og fleiri mjög erfiðum hlutum. En smátt og smátt fór ég að finna að ég gæti komið til baka og gæti breyst. Fjölskyldan og vinirnir létu mig vita að ég gæti komið til baka ef ég myndi breytast og ég verð alltaf þakklátur fyrir það,“ segir hann.

Flutti til Íslands frá Kýpur

Hlynur, sem er menntaður í þjónustustörfum og starfar nú sem hótelstjóri er frekar nýlega fluttur aftur til Íslands eftir að hafa búið um skeið á Kýpur. Þangað fór hann rétt áður en Covid faraldurinn byrjaði.

„Kýpur er bara draumur í dós og í raun falin perla Miðjarðarhafsins. Ég fór upphaflega þangað til að setja upp bókunarkerfi fyrir hótel og starfa í þeim geira sem ég þekki. En svo kom Covid og þá lokaðist fyrir ferðamenn og ég varð að finna mér eitthvað annað að gera. Ég vildi ekki gefast upp, þó að það hafi verið mjög strangar reglur í kringum Covid og fleiri hindranir, þannig að ég endaði á fara í samstarf við fasteignasölu og vann við það í tvö ár. Þetta var frábær tími og algjörlega dásamlegt land í alla staði. Allt mjög afslappað, veðrið alveg frábært og í raun mikil lífsgæði. Svo er þetta eitt öruggasta land í heimi og verðlagið er virkilega hagstætt. En Íslendingar eru frekar vanafastir þegar kemur að ferðalögum og þetta eina aukaflug virðist vefjast fyrir fólki. En ég seldi nokkrar fasteignir til Íslendinga og það búa núna nokkrir Íslendingar þarna núna eftir að hafa keypt af mér fasteign,“ segir hann.

Vakti athygli á samfélagsmiðlum

Það var á Kýpur sem Hlynur byrjaði að setja út mikið af efni á samfélagsmiðla. Síðan þá hefur hann vakið mikla athygli fyrir skemmtileg innslög á samfélagsmiðlum.

„Ég ákvað strax að aðalatriðið væri að skemmta mér og öðrum og vera bara eins mikið ég sjálfur og ég mögulega gæti. Það fer bara jákvætt efni inn á mína miðla. Mér finnst alveg nóg af neikvæðni þarna úti án þess að ég þurfi að bæta við hana. Ég fæ fullt af skilaboðum um að ég sé kjánalegur og asnalegur og fleira þess háttar, en það er bara þannig og ég læt það ekki á mig fá. Ef það sem ég er að gera fer í taugarnar á þér, en þú heldur áfram að skoða það, segir það meira um þig en mig. Ég er ekki að gera neinum illt og vil bara vera ég sjálfur áfram og njóta þess að vera til. Flestir eru í norminu á Íslandi, hvort sem það er klæðaburður eða annað og það vekur athygli ef fólk er öðruvísi. Sumum finnst þeir verða að láta mann vita að maður eigi að vera öðruvísi, en ég læt það sem vind um eyru þjóta. Ég ákvað á einhverjum punkti að vera bara ég og skemmta sjálfum mér og öðrum. Ég er í grunninn frekar feiminn og lokaður náungi, þannig að það sem ég er að gera á samfélagsmiðlum er líka útrás og æfing í að koma út úr skelinni,“ segir hann.

Varð fyrir aðkasti

Hlynur segir að einu skiptin sem hann hafi aðeins dregið úr því að setja inn efni hafi verið þegar dóttir hans varð fyrir aðkasti:

„Það kom tímabil þar sem hún varð fyrir aðkasti bara af því að hún er dóttir mín og þá breytti ég aðeins um takt. Þetta á bara að vera gaman og ef þetta skaðar dóttur mína hika ég ekki við að draga mig til baka. Maður stýrir víst ekki öðru fólki og börn eru börn, en sem betur fer var þetta bara stutt tímabil þegar myndböndin mín voru í mikilli dreifingu á milli fólks. Í dag held ég að flestir sjái það að ég er bara að reyna að dreifa jákvæðni og á endanum skilar það sér,“ segir hann.

Þáttinn með Hlyni og alla aðra þætti Sölva má nálgast inni á www:solvitryggva.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Íslensk móðir skráði sig á Tinder og fékk áfall vegna þess sem hún sá: „Mér finnst þetta svo hræðilega rangt“

Íslensk móðir skráði sig á Tinder og fékk áfall vegna þess sem hún sá: „Mér finnst þetta svo hræðilega rangt“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Guðrún gaf Helga Jean súludans í afmælisgjöf – Allir stoppuðu og horfðu

Guðrún gaf Helga Jean súludans í afmælisgjöf – Allir stoppuðu og horfðu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Svava Kristín lenti í slysi á unglingsaldri – „Ég get ekki orðið hlaupari en ég get gert margt annað“

Svava Kristín lenti í slysi á unglingsaldri – „Ég get ekki orðið hlaupari en ég get gert margt annað“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Hefur enn ekki leyft börnum sínum að horfa á Home Alone

Hefur enn ekki leyft börnum sínum að horfa á Home Alone