fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Eyjan

Sigmundur gerir upp Wintris-viðtalið og leynifund kröfuhafa – Hefði átt að „standa upp og kýla hann“ – „They never liked me“

Eyjan
Mánudaginn 24. apríl 2023 11:48

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra og þingmaður Miðflokksins, segir að réttast hefði hann átt að kýla sænska sjónvarpsmanninn Sven Bergman í Wintris-viðtalinu fræga árið 2016. Um hafi verið að ræða skipulagt samsæri sem beint var að ákveðnum aðilum og hafi fjölmiðlamenn í málinu ekki haft nokkurn áhuga á sannleikanum. Þetta kom fram í löngu og ítarlegu viðtali Sigmundar í hlaðvarpsþættinum Chat after dark.

Segir Bjarna vera nörd bak við tjöldin

Sigmundur fór í þættinum yfir tíma sinn sem forsætisráðherra. Hann hafi þar gengið eftir skuldaleiðréttingunni og hafa það mál sýnt og sannað að það sé hægt að ná í gegn stóru málunum sem stjórnmálamenn brenna fyrir og sé það ástæða þess að Sigmundur er enn í stjórnmálum í dag.

„En það að það skyldi takast að troðast þessu í gegn með öllum þeim ótrúlegu hindrunum sem mættust, hótunum, tilraunum til að múta manni og fleira og fleira. Og kerfið alltaf að leita að ástæðum fyrir því að þetta væri ekki hægt – Að það skyldi takast að klára þetta er ástæðan fyrir því að ég er ennþá í pólitík í dag vegna þess að ég hef séð að ef menn fara út í eitthvað verkefni, sannfærðir um að geta klárað það, þá er hægt að klára það.“

Ríkisstjórn hans hafi tekist að snúa við efnahag landsins sem hafði verið rjúkandi rústir eftir efnahagshrunið 2008. Samstarf ríkisstjórnaflokkanna hafi gengið vel og hafi Sigmundi og Bjarna Benediktssyni, fjármálaráðherra, komið vel saman.

„Mér fannst það bara ganga prýðilega, ljómandi vel og Bjarni er skemmtilegur maður. Mjög. Hann er húmoristi og hann er auðvitað svona fótboltagæji en hann er líka nörd Það vita það ekki allir. Hann er nörd á bak við tjöldin.“

„Herra forsætisráðherra, hvað geturðu sagt mér um félag sem nefnist Wintris?“

Óhjákvæmilega fór Sigmundur einnig yfir Wintris-viðtalið fræga. En fyrir þá sem ekki muna eftir því þá var um að ræða viðtal sem sænski sjónvarpsmaðurinn Sven Bergman tók við Sigmund. Sigmundur taldi sig vera kominn í viðtal til að ræða tiltekin mál og brá svo þegar Sven bar upp spurninguna frægu:

„Herra forsætisráðherra, hvað geturðu sagt mér um félag sem nefnist Wintris?“

Um var að ræða fyrirtæki sem kom fyrir í Panamaskjölunum- svokölluðu sem afhjúpuðu skattaskjól margra þekktra einstaklinga. Sven fékk svo íslenska blaðamanninn Jóhannes Kr. Kristjánsson, til að taka við viðtalinu sem var síðar sýnt í sérstökum Kastljóss-þætti.

Tveimur dögum eftir að viðtalið var sýnt sagði Sigmundur af sér embætti.

Sigmundur var í hlaðvarpinu spurður hvort að hann sæi eitthvað eftir sínum viðbrögðum við málinu.

„Með þetta og auðvitað ýmislegt annað þá hugsar maður eftir á stundum – ég hefði bara átt að segja strax hlutina eins og þeir eru og ekki reyna að laga mig að einhverri hysteríu.

[…]Nú tala ég, held ég meira að segja, sem sá stjórnmálamaður á Íslandi sem að hefur þolað flest svona „hit jobs af íslenskum stjórnmálamönnum allavega á þessari öld og langt aftur á þá síðustu. En þarna var sem sagt búið að undirbúa einhverja aðgerð sem var svo lýst í erlendum fjölmiðlum með hvaða hætti menn hefðu undirbúið, hvaða niðurstöðu þeir ætluðu að ná, ekki undirbúa það að komast að sannleikanum – það er náttúrulega gamaldags hugmynd að mati sumra fjölmiðlamanna nú til dags- en þeir höfðu undirbúið coop, byltingu á Íslandi, og alveg niður í smæstu díteila. Og fengið einhverja til að starfa með sér í því. Svo taka þeir eitthvað viðtal þarna. Og þeir voru, það var búið að gera allt til að reyna að rugla myndina.“

Hefði kannski átt að kýla Sven

Sænska sjónvarpsstöðin SVT hafði gengið vikum saman á eftir Sigmundi til að fá hann í viðtal sem átti að fjalla um efnahagsviðsnúning Íslands og mögulega um íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu. Sigmundur hafi á endanum látið undan þótt hann væri verulega upptekinn.

„Svo koma þeir þarna, rosalega hress og falskur Svíi. Og segja – hey þetta er alveg frábært maður hvað þið eruð búnir að vera gera hér í  þessum efnahagsmálum og landsliðið maður,  heyrðu þetta íslenska landslið“

Sven Bergman hafi smjaðrað fyrir Sigmundi og viðtalið hafi hafist með eðlilegum hætti.

„Svo byrjar hann eitthvað svona að spyrja út í efnahagsástandið og ég hugsaði að þetta væri svolítið sérkennilegt. Hann virtist ekkert vera að hlusta á svörin. Var eins og hann væri annars hugar, horfandi svona á milli veggja og eitthvað og tekur bara næstu spurningu og ég svara og það koma engin viðbrögð.“

Svo hafi spurningin fræga verið borin upp.

„Í hverju var ég lentur hérna. Hvað er þessi maður að tala um?

Svo eru þeir með eitthvað atriði þarna, einhverjar leikbrúður á bak við myndavélarnar til að reyna að trufla mann ennþá meira. Voru búnir að skipuleggja þetta allt, meira að segja teikningar að húsinu, og hvernig væri hægt að slá mann eins mikið út af laginu og hægt væri. Þarna voru þessar strengjabrúður á bak við, og þessi allt í einu byrjaður að tala um eitthvað allt annað heldur en íslenska efnhagsviðsnúninginn og svona Og ég varð kannski svolítið pirraður yfir þessu.“

Sigmundur segir að honum hafi seinna verið bent á að þarna hefðu eðlileg viðbrögð líklega verið þau að gefa sjónvarpsmanninum einn á kjammann.

„En eins og menn hafa bent á þá hefði maður kannski strax átt að standa upp og kýla hann. En ég er svona hlédrægur og kurteis maður að eðlisfari og mjög undrandi, kemur alltaf á óvart þegar menn svíkja mig, alltof oft. Maður er farinn að reyna að passa sig á því. En ég hef kannski verið svolítill sakleysingi með það hvað menn geta verið miklir svikarar.“

They never liked me

Eftir viðtalið hafi Sigmundur haldið heim, furðu lostinn, og ákveðið að senda tilkynningu á fjölmiðla um í hverju hann hefði lent og hvað málið varðaði. Honum hafi þó verið ráðlagt að gera það ekki heldur reyna frekar að koma öllum svörum á fjölmiðla um málið. Fjölmiðlar hafi þó lítinn áhuga haft á þeim skýringum.

„Ok notum bara þá leið. Segjum bara allan sannleikann. Ég fer bara að senda á fjölmiðla allar upplýsingar. Meðal annars um þetta fyrirtæki og hvernig það hafi gengið fyrir sig og svo framvegis. En fjölmiðlarnir, þar með talið Ríkisútvarpið sem var svona leiksoppur þessara afla í þessu máli og líkaði það örugglega vel, það svona varla segir fréttir af því.

Forsætisráðherra er að tilkynna opinberlega um eitthvað fyrirtæki og einhvern grun um eitthvað, skattamál og svona. Það er varla sögð frétt af því í tvær vikur. Af hverju var það? Það var vegna þess að þeir voru bara þátttakendur í einhverju plani um að búa til leiksýningu. Það hentaði ekki að fá sannleikann og alls ekki of snemma. Það myndi eyðileggja sýninguna. Þetta sýndi manni að fjölmiðlar eru ekki alltaf í leit að sannleikanum. Þeir eru stundum að reyna að búa til atburðarás.“

Sigmundur segir ljóst að hann hafi ekki verið vinsæll á RÚV, þó svo hann hafi unnið þar sem þáttastjórnandi og fréttamaður um árabil.

They never liked me. Þó ég hafi verið að vinna þarna. Kannski teljast það svik, ég veit það að ekki, að ég skuli ekki vera eins og Gísli Marteinn á vinstri kantinum að tala um reiðhjól“

Sigmundur segir að RÚV hafi aldrei haft fyrir því að leiðrétta fréttaflutning sinn af þessu máli og jafnvel haldi fólk enn þann dag í dag að hann eða kona hans hafi átt fyrirtæki í skattaskjóli. Það sé þó fjarri lagi. Fyrirtækið hafi verið íslenskur skattaðili og greitt íslenska skatta, þó að leikur einn hefði verið að komast hjá því. Eiginkona Sigmundar, Anna Sigurlaug Pálsdóttir, hafi alltaf verið harðákveðin í því að gera skattana upp hér á landi.

„Þetta var stærra en RÚV. Það var skipulagt, og þetta er engin samsæriskenning ég er bara að vísa í staðreyndir sem þessir aðilar auglýstu sjálfir, af hópi fjölmiðla sem að vildu ná ákveðnum mönnum niður.“

Forsætisráðherrablók frá Íslandi

Meira að segja hafi verið birt mynd af Sigmundi í þýsku dagblaði þar sem honum var stillt upp við hlið þáverandi forseta Írans, Mahmoud Ahmadinejad og forseta Sýrlands Bashar al-Assad.

„Hvernig getur það gerst að einhver forsætisráðherrablók á Íslandi sé svona verðmætt target að hann sé settur í þetta samhengi? Og í þessum skjölum sko það voru allskonar menn. Það var forsætisráðherra Bretlands, James Cameron, sem hafði raunverulega notið góðs af fyrirtæki í skattaskjóli. Lionel Messi og hinir og þessir. Af hverju var ég svona mikilvægt skotmark?“

Sigmundur var aftur spurður hvort hann liti svo á að hann hefði átt að bregðast við málinu með öðrum hætti en hann gerði.

„Fyrir utan að kýla menn þá eða?,“ svaraði hann þá.

Vissulega mætti örugglega segja að hann hefði átt að bregðast öðruvísi við. En líklega hefði það ekki breytt því sem á eftir fylgdi þar sem aðförin að honum hafi verið þaulskipulögð.

„En hefði það breytt eitthvað niðurstöðunni? Ég veit það ekki því það var búið að ákveða skotmarkið og verja svo miklum tíma í að skipuleggja þetta, í samræmi við hótanirnar sem maður hafði fengið áður í kröfuhafastríðinu.“

Kröfuhafar buðu honum á leynifund

Sigmundur útskýrir nánar hvað hann á við. Kröfuhafar hafi haft gífurlega hagsmuni í húfi í Icesave-málinu svokallaða, í slitabúum föllnu bankanna og eins þegar kom að skuldaleiðréttingunni.

Kröfuhafarnir höfðu ákveðið að nýta tækifærið þegar þeir komust að því að Sigmundur væri að fara á slóðir Vestur-Íslendinga í Kanada og í Norður-Dakóta.

„Þá fékk ég upplýsingar um að það væri búið að taka frá einhvern svona sumarbústað, eða kofa, í Norður-Dakóta sem væri utan farsímasambands. Ef ég gæti hitt menn þar þá gæti ég verið öruggur um það að það væri enginn möguleiki á hlerunum, ekkert farsímasamband og við gætum afgreitt þetta bara á staðnum á þann hátt að ég myndi njóta mjög góðs af.

Þetta voru svona fyrri tilraunirnar til að mýkja mann upp og fá mann með. Síðan komu hótanirnar og þær fólu meðal annars í sér – þessir menn vita ákveðna hluti um þig og þeir verða gerðir öllum opinberir á. mjög afgerandi hátt ef þú spilar ekki með –  og ég spilaði ekki með. Ég þvert á móti tilkynnti um þessar aðgerðir án þess að vera búinn að klára það við kerfið. Því ég sagði – þegar búið er að tilkynna þetta þá verður það að ganga eftir og þá er ekki hægt að stoppa þetta.“

Varðandi viðskilnað sinn við Framsóknarflokkinn segir Sigmundur að það sé löng saga sem einhvern tímann verði sögð. Framsóknarflokkurinn hafi ákveðið að taka upp nýja stefnu sem hafi ekkert með pólitík að gera.

„Að fylgja ekki endilega einhverri stefnu heldur reiða sig á auglýsingastofur og einhverjar herferðir rétt fyrir kosningar bara til að ná nógu miklu fylgi, þó það væri ekki nema 10 prósent til að skipta máli við ríkisstjórnarmyndun og vera þá til í hvað sem er með hverjum sem er sem sem að leyfði þeim að útdeila sætum og gæðum. Eins og þeir sem að þá höfðu tekið völdin vildu. Þetta var nýja viðskiptamódelið, þetta var ekki pólitík, þetta var notkun á flokki í öðrum tilgangi. “

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Björn Jón skrifar: Af valkyrjum

Björn Jón skrifar: Af valkyrjum
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Óttinn við stjórnarmyndun valkyrja fer vaxandi hjá valdaöflum – brýnt að fram fari úttekt á slæmri stöðu þjóðarbúsins

Orðið á götunni: Óttinn við stjórnarmyndun valkyrja fer vaxandi hjá valdaöflum – brýnt að fram fari úttekt á slæmri stöðu þjóðarbúsins
Eyjan
Fyrir 1 viku

Birgir segir að Þórður Snær sé réttkjörinn: „Þetta á sér ekki fordæmi svo ég viti til“

Birgir segir að Þórður Snær sé réttkjörinn: „Þetta á sér ekki fordæmi svo ég viti til“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Hvað fór fram á fundi Trudeau og Trump? – Tvær ólíkar útgáfur á sveimi

Hvað fór fram á fundi Trudeau og Trump? – Tvær ólíkar útgáfur á sveimi