Bandaríski leikarinn Matthew Perry segist hafa gengið of langt í ævisögu sinni þegar hann fjallaði um kollega sinn, leikarann Keanu Reeves.
Á tveimur stöðum í ævisögu kappans kom nafn Reeves fyrir en í miður skemmtilegu samhengi.
„Það virðist alltaf vera þannig að hæfileikaríka fólkið deyr fyrst,“ sagði hann og nefndi leikarana River Phoenix og Heath Ledger sem dóu ungir eftir baráttu við fíknisjúkdóm. „En svo gengur Keanu Reeves enn á meðal okkar,“ sagði hann í bók sinni.
Á öðrum stað í bókinni ræddi hann dauða gamanleikarans Chris Farley og hvernig hann brást við þegar hann frétti af andláti hans. „Ég kýldi í gegnum veginn á búningsherbergi Jennifer Aniston,“ sagði hann og tók aftur fram að Keanu Reeves væri á lífi.
Matthew Perry var á meðal framsögumanna á Los Angeles Times Festival of Books á laugardag þar sem hann sagði að þessi ummæli yrðu fjarlægð úr næstu prentun ævisögunnar.
„Það sem ég sagði var heimskulegt og kvikindislegt. Ég hef beðið hann opinberlega afsökunar og næsta prentun verður ekki með nafninu hans,“ sagði hann en tók fram að hann hefði ekki beðið Reeves afsökunar í eigin persónu.
„En ef ég hitti hann mun ég gera það. Þetta var heimskulegt.“