fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Eyjan

Gunnar Smári og Dagur takast á um húsnæðismálin – „Þú kannt ekki að skammast þín heldur veltir þér upp úr lyginni“

Eyjan
Sunnudaginn 23. apríl 2023 17:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri var í viðtali í Silfrinu á RÚV í dag. Var þar meðal annars leitað skýringa á mjög erfiðri skuldastöðu borgarinnar. Skuldir borgarinnar hafa aukist um 11 milljarða á einu ári. Dagur gaf þær skýringar að annars vegar hefði ríkið ekki fjármagnað með fullnægjandi hætti málefni fatlaðs fólks og borgin hefði setið uppi með þann kostnað. Hins vegar væri það verðbólgan sem hefði aukið skuldir borgarinnar um sex milljarða króna.

Í viðtalinu hrósaði Dagur sér af uppbyggingu borgarinnar á húsnæði fyrir hina efnaminni. Ríkið hyggt láta reisa 5.600 óhagnaðardrifnar íbúðir á viðráðanlegu verði. Dagur spyr hvers vegna önnur sveitarfélög hafi ekki fylgt fordæmi borgarinnar og fjölgað félagslegum leiguíbúðum. Segir hann borgina hafa lyft grettistaki í þessum málum.

Líkti Dagur framlagi borgarinnar á þessu sviði við uppbyggingu Breiðholtsins á sínum tíma. „Þetta eru fimm Breiðholts-verkefni, þar voru 1250 íbúðir byggðar á um rúmum fimmtán árum,“ sagði hann. „Og það eru yfir fimm þúsund manns sem hafa fengið inn í öruggu húsnæði á viðráðanlegu verði bara á undanförnum árum vegna átaks borgarinnar,“ sagði Dagur ennfremur.

„Dagur, þú ert enginn Gvendur jaki“

Gunnar Smári Egilsson, einn stofnenda Sósíalistaflokksins og ritstjóri Samstöðvarinnar, gagnrýnir Dag harðlega fyrir að líkja húsnæðisuppbyggingu borgarinnar við Breiðholtstímabilið. Takast þeir Gunnar og Dagur á um þetta á Facebook-síðu Sósíalistaflokksins. Þeim ber ekki saman um tölur og saka hvor annan um að fara ekki rétt með tölur. Gunnar Smári skrifar þennan pistil um málið:

„Dagur, þú ert enginn Gvendur jaki

Dagur B. Eggertsson bar sig saman við þá sem byggðu upp Breiðholtið í Silfrinu. Sagði að það sem þeir hefðu gert hefði hann gert fimm sinnum, hann væri fimmfaldur á við Gvend jaka og félaga. Og vísaði til þess að júnísamkomulag verkalýðshreyfingarinnar við fyrirtækjaeigendur og ríkisvaldið árið 1964 hafi verið gert ráð 1.250 íbúðum.

Árið 1965 vou verkamannabústaðir í Reykjavík um 800. Tuttugu árum síðar voru verkamannabústaðir orðnir um 2600, hafði fjölgað um 1800 íbúðir á tuttugu árum eða 90 íbúðir á ári.

Til að setja þetta í samhengi við fjölgun íbúa þá bættist við ein íbúð í verkamannabústaðakerfinu fyrir hverja 6,4 nýja íbúa.

Bjarg hefur frá samningunum 2015 byggt 613 íbúðir í Reykjavík. Þetta gera um 77 íbúðir á ári að meðaltali.

Til að setja þetta í samhengi við fjölgun íbúa þá bættist við ein íbúð hjá Bjargi fyrir hverja 29,3 nýja íbúa í Reykjavík. Á þessum mælikvarða var uppbygging íbúða fyrir láglaunafólk í Breiðholti 4,5 sinnum hraðari en hún er nú hjá Bjargi í Reykjavík.

48 íbúðir eru í byggingu hjá Bjargi í Reykjavík. 107 íbúðir eru í undirbúningi. 707 íbúðir eru hins vegar í bið, eru staðsett í óskipulögum hverfum framtíðarinnar. Þetta sýnir að ekki er að búast við auknum hraða uppbyggingar Bjargs, heldur minni hraða.

Í ársbyrjun 2010 voru íbúðir í Reykjavík 50.733 en voru um síðustu áramót 59.035. Þetta er aukning um 8.302 eða um 16,4%. Á sama tíma fjölgaði íbúum Reykjavíkur um 18,2%. Það vantar því 934 íbúðir svo uppbygging hefði haldið í við mannfjölgun. Þessi skortur veldur verðhækkunum á íbúðum svo færri geta keypt og færast þá yfir á leigumarkaði, þar sem skorturinn veldur hækkun á húsleigu.

Í árslok 2022 áttu Félagsbústaðir 2.263. Það er aukning um 399 íbúðir frá árslokum 2009, áramótin áður en Samfylkingin og Besti flokkurinn mynduðu meirihluta. Þetta er 21,6% aukning félagslegra íbúða fyrir hin fátækustu frá því að Dagur tók við stjórn borgarinnar. Á sama tíma fjölgaði íbúum Reykjavíkur um 18,2%. Fjölgun leiguíbúða fyrir hin allra fátækustu eru því 83 íbúðir umfram fjölgun íbúa, eða 6 íbúðir á ári, ein íbúð annan hvern mánuð.

Ég finn ekki í fljótu bragði fjölgun félagslegra leiguíbúða á uppbyggingartíma Breiðholts, en enn í dag eiga Félagsbústaðir um 700 íbúðir í Breiðholti. Ef við ætlum uppbyggingartímann tuttugu ár þá jafngildir þetta 35 nýjum íbúðum á ári, til samanburðar við 28 íbúðir á ári frá 2009. En á tuttugu ára uppbyggingartímabili Breiðholts voru íbúðir líka byggðar og keyptar í öðrum hverfum borgarinnar. En. ef við tökum aðeins Breiðholtið þá hefur bæst við ein félagsleg leiguíbúð á hver 51 nýjan íbúa tíma Dags en á tíma Breiðholtsins kom ein ný leiguíbúð á hverja 16 nýja íbúa.

Ástæða þess að Degi B. finnst hann eins og frumkvöðlar Breiðholts er að hann telur með stúdentaíbúðir, íbúðir fyrir fatlaða og aldraða, til að stækka sitt afrek en ber það aðeins saman við ráðagerð uppbyggingu verkamannabústaða í júnísamkomulaginu frá 1964. Smá grúsk í kunnum tölum sýnir hins vegar að þetta er alrangt hjá Degi. Hann er enginn Gvendur jaki.

Uppbygging Breiðholtsins nánast útrýmdi braggahverfunum og ósamþykktum leiguíbúðum, slömmi, í Reykjavík. Í valdatíð Dags hafa þessi slömm snúið aftur, í iðnaðarhverfunum, í bílskúrum og hreysum sem ekki eru hæf sem mannabústaðir.“

Segir að Gunnar Smári ráði illa við sig þegar hann er annars vegar

„Elsku Gunnar Smári – mikið leiðist mér að þú ráðir illa við þig þegar ég er annars vegar. Og verra þegar þú ferð svona rangt með,“ segir borgarstjórinn í svari sínu til Gunnars Smára. Bendir hann á að þjónustuíbúðum fyrir aldraða hafi fjölgað miklu meira en 399 eins og Gunnar Smári haldi fram:

„En það er alrangt hjá þér að þeim hafi aðeins fjölgað um 399. Þær eru nú orðnar yfir 3.000 og hefur sum sé fjölgað um 50% í minni tíð – eða jafnmikið á tíu árum einsog á hundrað hjá Sjálfstæðisflokknum. Til viðbótar koma síðan á þriðja þústund íbúðir Bjargs, stúdenta, byggingafélaga aldraðra ofl. sem bæst hafa inn á húsnæðismarkaðinn í Reykjavík. Öruggt húsaskjól fyrir yfir 5.000 borgarbúa. Og þú ætlar að bjóða upp á það framlag til umræðunnar að fara ekki einu sinni rétt með tölurnar og halda því til viðbótar fram að ég hafi líkt mér við Guðmund Jaka. Það hef ég að sjálfsögðu ekki gert. Hins vegar bar ég saman Breiðholtsverkefnið – sem voru 1.000 íbúðir á vegum verkalýðshreyfingarinnar og 250 íbúðir á vegum borgarinnar sem byggðust á um 15 árum saman við nýja samninginn til næstu tíu ára sem kveða á um 16.000 íbúðir í borginni, þar sem 4.800 á vegum óhagnaðardrifinna félaga og 800 á vegum félagsbústaða eða alls 5.600 íbúðir á viðráðanlegu verði fyrir fólk með lágar eða millitekjur. Það er beint framhald af árangri undanfarinna ára og fimmfalt Breiðholts-verkefni – algjörlega með fullri virðingu fyrir því.“

Gunnar Smári svarar Degi fullum hálsi og ráðleggur fólki að trúa fremur tölulegri framsetningu hans en borgarstjórans. Gunnar Smári segir:

„Og þú kannt ekki að skammast þín heldur veltir þér upp úr lyginni. Ef þú vilt tala um eitthvað allt annað, telja með gistiskýli og þjónustuíbúðir þá verður þú að bæta þeim við líka 2009. Til að fá út stórafrek þitt um yfir 1000 íbúða fjölgun þá tekur þú aðeins félagslegar íbúðir á upphafsreit en síðan allan pakkann á lokareit.

2009 voru félagslegar leiguíbúðir 1844 en því til viðbótar sáu Félagsbústaðir um 310 þjónustuíbúðir. Frá þeim tíma hefur félagslegum íbúðum fjölgað um 399 en þjónustuíbúðum um 465, sem er allt annað kerfi en þú gerðir að umtalsefni með því að draga inn júnísamkomulagið og uppbyggingu Breiðholts. Einfaldur samanburður sýnir að mont þitt um að þú sért á við fimm Breiðholt er svo hlægilegt að ég finn til með þér.“

 

Nánar má lesa á Facebook-síðu Sósíalistaflokksins. 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Allir mættu nema Mbappe
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Mogginn og Sjálfstæðisflokkurinn engjast

Orðið á götunni: Mogginn og Sjálfstæðisflokkurinn engjast