Heimsmeistarinn Alexis Mac Allister mun alls ekki reyna að þvinga brottför í sumar þrátt fyrir áhuga frá mörgum liðum í Evrópu.
Mac Allister er á mála hjá Brighton en hann vann HM með Argentínu í desember og stóð sig virkilega vel í Katar.
Brighton er ekki eitt af stærstu félagsliðum heims en Mac Allister er ekki að flýta sér burt eftir að hafa komið til félagsins fyrir fjórum árum.
,,Sannleikurinn er sá að ég er mjög ánægður hjá félaginu. Ég reyni að hugsa ekki of mikið út í framtíðina,“ sagði Mac Allister.
,,Ég veit að það er mikið talað þessa stundina og það er eðlilegt eftir sigurinn á HM. Í janúar voru kjaftasögurnar farnar af stað en ég er mjög rólegur. Ég einbeiti mér að því að spila og bæta minn leik.“
,,Ég ber mikla virðingu fyrir Brighton því ég er svo þakklátur. Í sumar þá sjkáum við til, ef tilboð berst sem hentar okkur báðum þá munum við fá okkur sæti og ræða málin. Sama hvað þá verð ég ánægður hjá félaginu.“