fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar – Kerfi sem letur menn til vinnu

Eyjan
Sunnudaginn 23. apríl 2023 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar Björk Vilhelmsdóttir lét af embætti borgarfulltrúa haustið 2015 sagði hún í viðtali við Fréttablaðið að of mikil áhersla væri á að kortleggja veikleika fólks. Innan velferðarþjónustunnar ætti sér stað „veikleikavæðing“ og sama gilti um samfélagið yfir höfuð:

„Fólk er upptekið af því hvaða greiningar það hefur fengið, hvaða sjúkdóma það hefur fengið, hverjir hafa skilið í stórfjölskyldunni og mögulega valdið áföllum alveg frá þriggja ára aldri og hverjir hafa orðið fyrir ofbeldi og svona. Þið fjölmiðlarnir algjörlega alið á þessu með því að koma engum í viðtal nema hann hafi orðið fyrir ofbeldi eða áfalli alveg endalaust. Ég segi stundum að Íslendingar séu bara haldnir algjörri áfallastreituröskun og viðhalda sér í áfallinu með því að fá alltaf fleiri og fleiri sögur af fleiri og fleiri áföllum hjá öðrum. Við erum bara föst í þessu.“

Vinnufært fólk á opinberu framfæri

Blaðamaður spurði Björk þá hvort hér ætti sér stað „aumingjavæðing“ og tók hún undir það. Fólk fengi meira með því að eiga svolítið bágt, „meiri athygli og meiri bætur“. Hún væri þó ekki að gera lítið úr vanda fólks, það mætti einfaldlega ekki festast í vandanum. Félagsráðgjafar ættu að „sparka í rassinn á fólki og koma því áfram“ því allir hefðu sína styrkleika:

„Ég ætla bara segja það hér, að mér finnst það synd þegar félagsráðgjafinn fer að líta á það sem mannréttindi skjólstæðings síns að reykja kannabis og fokka upp lífi sínu. Að fara að berjast fyrir því að hann fái að vera bara á þeim stað í tilverunni.“

Þessi sami einstaklingur gæti ef til vill með öllum sínum styrkleikum unnið sig út úr vandanum — ekki fyrir samfélagið heldur umfram allt fyrir sjálfan sig. Hún bætti því við að alltof margt vinnufært fólk þægi fjárhagsaðstoð. Hún hefði sem formaður velferðarráðs borgarinnar barist fyrir því árum saman að fjárhagsaðstoð yrði skilyrt en ekki haft erindi sem erfiði.

Björk nefndi í viðtalinu að það henti reglulega að ungt vinnufært fólk yrði óvinnufært því það væri of lengi á fjárhagsaðstoð. Það missti hlutverk sitt og taktinn í tilverunni. Færi kannski að sofa þrettán tíma á sólarhring sem leiddi til stoðkerfisvanda, svo yrðu menn bakveikir, daprir og þunglyndir. Lífskrafturinn þyrri hægt og bítandi.

Útgjöldin aukast hratt

Vandinn hefur bara aukist síðan Björk yfirgaf borgarmálin. Áætlað er að útgjöld Reykjavíkurborgar til velferðarmála nemi 40 milljörðum króna á þessu ári en samkvæmt reikningi ársins 2021 nam kostnaður við málaflokkinn 35 milljörðum. Heildarútgjöld borgarsjóðs á þessu ári eru áætluð 165 milljarðar króna og velferðarmálin næststærsti útgjaldaliðurinn á eftir skólamálum.

Mál þessu tengd snerta samt ekki bara sveit og borg heldur ekki síður ríkisvaldið. Samkvæmt tölum frá Tryggingastofun ríkisins hefur fjöldi öryrkja tvöfaldast frá aldamótum. Á fjárlögum þessa árs er gert ráð fyrir rúmum 97 milljörðum til örorku (og þar af að nokkru málefna fatlaðs fólks). Í fyrra nam sú tala 89 milljörðum en var 81 milljarður árið 2021. Af þessum 97 milljörðum er 57 varið til örorkulífeyris, örorkuuppbótar, tekjutryggingar örorkulífeyrisþega, vasapeninga örorkulífeyrisþega og örorkustyrks. Sú tala nam 47 milljörðum skv. ríkisreikningi ársins 2021 — það gerir um það bil fimmtungsaukningu á aðeins tveimur árum. Efnahags- og framfarastofnunin hefur ítrekað vikið að þessum útgjaldaflokki í skýrslum sínum um Ísland og bent á að styðja þurfi örorkuþega til aukinnar þátttöku á vinnumarkaði. Þessum tillögum hefur lítt (ef þá nokkuð) verið sinnt sem sést best af því hvernig málaflokkurinn blæs út.

Í þessu sambandi er full ástæða til að kanna nákvæmlega umfang bótasvika en ég hef orðið þess var að nálega í hvert sinn sem þetta er nefnt rísa upp sjálfskipaðir talsmenn örorkuþega sem segja að með umræðu um möguleg bótasvik sé sjálfkrafa fólgin árás á alla þá sem höllum fæti standa í samfélaginu. Fyrir vikið er staðan orðin sú að þeir fáu stjórnmálamenn sem vilja gæta aðhalds í opinberum rekstri veigra sér við því að ræða þessi mál. Afleiðingin er algjör þöggun.

Rækta færni til vinnu

Pétur heitinn Blöndal gerði þessi mál reglulega að umtalsefni. Hann sagði kerfið vinna gegn endurhæfingu og beinlínis búa til öryrkja. Almannatryggingakerfinu yrði að gerbreyta þannig að hætt yrði að einblína á vangetu öryrkjans og þess í stað reynt af alefla að rækta færni hans til vinnu. Mati á örorku ætti að breyta úr læknisfræðilegu í mat á hæfni til að afla tekna. Við blasti að fjöldi öryrkja væri hæfur til að stunda fulla vinnu. Hugmynd Péturs var sú að tekið yrði upp vinnumat í heilum prósentum, þannig að maður sem hefði 60% vinnugetu mætti þéna 60% af fyrri tekjum án skerðinga og fengi þá 40% af fullum lífeyri frá lífeyrissjóði og Tryggingastofnun.

Markmiðið hlýtur að sjálfsögðu að vera að sem fæstir þiggi örorkubætur og fjárhagsstyrk sveitarfélags — það veitir fólki líka margfalt meiri lífsfyllingu að geta verið virkir þátttakendur í samfélaginu, veitendur en ekki þiggjendur. Þar með verða meiri fjármunir aukreitis til að gera vel við þá sem raunverulega þarfnast bóta. Í Noregi og Danmörku, þeim löndum sem við berum okkur helst saman við, er afar hart tekið á öllu svindli í almannatryggingakerfinu — en þarlendum stofnunum eru búnar viðurhlutamiklar heimildir til að fylgjast með svikum. Í báðum löndum hafa jafnaðarmenn lengi verið við stjórnvölinn. Forystumenn þeirra vita sem er að eigi að tryggja sátt um velferðarkerfið er afar brýnt að taka hart á öllu bótasvindli.

Þetta er sanngirnismál sem á ekki að þurfa að deila um. Ef bótaþegi vinnur svarta vinnu þá þarf vitaskuld að rannsaka slíkt líkt og hver önnur svik — ekki ætti að viðhafa minna eftirlit með svikum í almannatryggingakerfinu en er með skattsvikum.

Betur hefðu menn hlýtt kalli Bjarkar Vilhelmsdóttur og leitað leiða til að hjálpa fólki til sjálfshjálpar í stað þess að þenja enn út kerfi sem virðist letja menn til vinnu. Það eru líka gömul sannindi að miklu meiri lífsfylling er í því fólgin að hjálpa manni á fætur en þjóna honum til sængur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Einmanaleiki drykkjunnar

Óttar Guðmundsson skrifar: Einmanaleiki drykkjunnar
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Óheiðarleiki er smitsjúkdómur

Steinunn Ólína skrifar: Óheiðarleiki er smitsjúkdómur
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Þórður Snær myndi slaufa Þórði Snæ

Ágúst Borgþór skrifar: Þórður Snær myndi slaufa Þórði Snæ
EyjanFastir pennar
02.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin
EyjanFastir pennar
01.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið
EyjanFastir pennar
26.10.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland
EyjanFastir pennar
26.10.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa