Leikkonan Shannon Doherty er hefur farið fram á skilnað við eiginmann sinn, ljósmyndarann Kurt Iswarienko. Slúðurmiðillinn PageSix greinir frá þessu og gefur í skyn að ástæðan sé sú að önnur kona sé í spilunum hjá Kurt og að hann hafi flutt út af heimili þeirra í janúar síðastliðnu,
Um reiðarslag er að ræða fyrir Doherty sem hefur þó nóg fyrir á sinni könnu. Leikkonan, sem er 52 ára gömul. hefur glímt við mikil veikindi undanfarin ár. Hún greindist með brjóstakrabbamein fyrir nokkrum árum, sigraðist á því en síðan tók meinið sig upp að nýju og er núna á alvarlegu stigi.
Kurt, sem er 48 ára gamall, er þriðji eiginmaður Doherty en parið gifti sig árið 2012. Doherty, sem er þekktust fyrir hlutverk sitt í sjónvarpsþáttunum Beverly Hills 90210, hefur áður rætt það í viðtölum hvernig að Kurt hafi staðið sem klettur með henni í gegnum veikindin og glíman við þau hafi gert samband þeirra mun dýpra og sterkara.