Aðdragandinn að morði á 27 ára gömlum Pólverja að kvöldi sumardagsins fyrsta var ágreiningur sem átti sér stað inn á bar í nágrenni morðvettvangsins, nánar tiltekið Íslenska rokkbarnum að Bæjarhrauni 26.
Fjögur ungmenni undir tvítugu, þrír piltar og ein stúlka, eru í haldi lögreglu og hafa verið úrskurðuð í gæsluvarðhald til 27. apríl vegna rannsóknar lögreglu á láti 27 ára gamals manns frá Póllandi. Maðurinn var stunginn mörgum sinnum.
RÚV greinir frá því að samskipti ungmennanna og Pólverjans hafi hafist inni á Íslenska rokkbarnum. Þar hafi upphafist einhvers konar ágreiningur sem hafi haldið áfram út á bílastæðið hinum megin við götuna þar sem árásin var framin. Rætt hefur verið við gesti og starfsfólk á barnum og hefur lögregla átt í ágætu samstarfi við þá sem reka barinn að sögn Gríms Grímssonar, yfirlögregluþjóns á Miðlægri rannsóknardeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Íslenski rokkbarinn er nokkuð vinsæll meðal Hafnfirðinga og þar er oft í boði lifandi tónlist. Barinn er skráður í eigu litháeskrar konu en er DV hringdi í hana varð eiginmaður hennar fyrir svörum. Maðurinn sagði að hún myndi ekki ræða við blaðamann. „Við gefum engin komment. Málið er bara í rannsókn.“