Erik ten Hag stjóri Manchester United hrósar Harry Maguire fyrir það hvernig hann fær samherja sína til að vera á tánum.
Ten Hag gerði þetta á fréttamannafundi í dag, degi eftir afhroð Maguire í tapi gegn Sevilla í Evrópudeildinni.
Maguire og David de Gea fá mesta gagnrýni eftir að United féll úr leik í Evrópu en United er að spila í undanúrslitum enska bikarsins á sunnudag. Þar mætir liðið Brighton.
„Hann er mikilvægur hlekkur, hann er okkar fyrirliði,“ sagði Ten Hag en Maguire tekur út leikbann á sunnudag.
„Hann leiðir okkur áfram og er sá sem er í samskiptum við mig, hann kveikir neistann í liðinu. Hann er mikil fyrirmynd á æfingasvæðinu.“
Fréttir í dag segja að Ten Hag sé að skoða að selja allt að 15 leikmenn í sumar. „Við sem atvinnumenn erum alltaf að spila fyrir framtíð okkar,“ sagði Ten Hag en hann er sagður vilja selja Maguire í sumar.