Þetta sagði Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, utanríkisráðherra, í samtali við Morgunblaðið. Hún nefndi í þessu samhengi að í kjölfar þess að Rússar hertóku Krím 2014 hafi Bandaríkjamenn aukið kafbátaeftirlit sitt.
„Eftirlit Bandaríkjamanna bæði úr lofti og úr hafi hefur verið að aukast og ef við setjum það í samhengi við ákvörðun mína að heimila kafbátum að koma hérna upp þá eykur það í sjálfu sér eftirlitið enda hafa þeir þar til nú þurft að verja nokkrum dögum í að sigla til Noregs til að komast upp. Af því leiðir að eftirlitið er að aukast og mun aukast,“ er haft eftir Þórdísi.
Það voru danskir, sænskir, norskir og finnskir ríkisfjölmiðlar sem köfuðu ofan í umfangsmikla njósnastarfsemi Rússa á norrænum hafsvæðum og í höfnum. Gera þeir út fimmtíu njósnaskip, sem eru meðal annars dulbúin sem togarar og rannsóknarskip.
Hvað varðar auknar fjárveitingar til varnarmála vegna starfsemi Rússa sagði Þórdís að almenn geta okkar í samstarfi innan NATO og á grundvelli tvíhliða varnarsamnings fari mjög saman við getu nágrannaríkja okkar. Til dæmis hafi ríkisstjórnin heimilað 15-20 milljarða uppbyggingu á birgðageymslu á Keflavíkursvæðinu og sjái Bandaríkjamenn um hana.
„Við gerum einnig ráð fyrir viðbótarfjármunum í varnartengd verkefni í fjármálaáætlun sem nú liggur fyrir þinginu, einmitt til að vera betur í stakk búin á breyttum tímum,“ sagði hún einnig.
Hvað varðar áhrif þess ef sæstrengirnir til landsins skemmast sagði hún að þar sé um viðkvæma innviði að ræða og ef þeir verði klipptir í sundur sé augljóst að það myndi hafa mikil áhrif hér á landi sem og á hinum Norðurlöndunum.