West Ham og Basel tryggðu sig inn í undanúrslit Sambandsdeilarinnar í kvöld. Seinni leikir 8-liða úrslita fóru þá fram.
Fyrri leik Gent og West Ham í Belgíu lauk með 1-1 jafntefli en í kvöld var leikið í Lundúnum.
Hugo Cuypers kom gestunum yfir á 26. mínútu en um tíu mínútum síðar jafnaði Michail Antonio fyrir West Ham.
Á fyrstu 20 mínútum seinni hálfleiks gerðu Hamrarnir svo út um dæmið. Fyrst skoraði Lucas Paqueta af vítapunktinum á 55. mínútu.
Skömmu síðar skoraði Declan Rice þriðja markið og Antonio innsiglaði svo 4-1 sigur.
Í Suður-Frakklandi tók Nice á móti Basel. Fyrri leiknum lauk 2-2 og útlitið var gott fyrir heimamenn því strax á 9. mínútu kom Gaetan Laborde þeim yfir.
Jean-Kevin Augustin jafnaði hins vegar seint í leiknum og kom honum í framlengingu.
Þar skoraði Kasim Adams sigurmarkið fyrir Basel sem fer í undanúrslit.
Auk West Ham og Basel verða í undanúrslitum AZ Alkmaar og Fiorentina.