Lífið fjarar hægt og rólega úr líkamanum en kringumstæðurnar geta verið mjög mismunandi á milli fólks. Þar spila lífsaðstæður, sjúkdómar og margt annað inn í. En líkaminn sendir frá sér mörg merki sem gefa skýrt til kynna að nú sé hinsta stundin að renna upp.
Fyrst og fremst hægir á líkamsstarfseminni. Hjartað slær af veikari mætti þannig að það hægir á blóðrásinni. Það hefur í för með sér að heilinn og hjartað fá minna súrefni. Súrefni skiptir öllu fyrir heilann og minna súrefni þýðir að heilinn hættir að starfa eins vel og áður, sérstaklega þegar kemur að ákvarðanatöku, hugsun og minni.
Síðustu vikurnar fyrir andlátið eru flestir þreyttir megnið af tímanum. Sofa oftar og lengur, tala minna og matarlystin getur minnkað og mataræðið breyst. Þyngdartap getur einnig átt sér stað og húðin þynnist almennt því endurnýjun hennar verður erfiðari fyrir líkamann. Þetta á einnig við um önnur líffæri og bein.
Healthdirect segir að síðustu dagana fyrir andlátið missi fólk stjórn á andardrættinum, hann verður hægari um hríð, síðan hraðari og almennt er útilokað að spá fyrir hvaða mynstri hann fylgir.
Vökvi byrjar oft að safnast upp í lungunum og andardrátturinn verður því oft hryglukenndur. Hósti fylgir oft en ekki djúpur. Sumir fyllast skyndilega orku síðasta sólarhringinn áður en þeir deyja og í skamman tíma virkar allt eðlilega hjá þeim.
Húðin breytir oft um lit eftir því sem hægir á blóðrásinni.
Eftir því sem súrefnisskorturinn í heilanum eykst, leggst þoka yfir hugsun hins deyjandi, það hægist á öllu og syfja sækir á. Fólk getur upplifað ofskynjanir og talað við fólk sem er hvergi nærri. Sumir missa meðvitund síðustu daga lífsins.
Síðustu 24 klukkustundirnar fyrir andlátið sofa flestir nær allan tímann. Þeir eru hugsanlega ófærir um að tjá sig því skilningarvitin hafa lokast. En rétt er að hafa í huga að deyjandi fólk heyrir og því er mikilvægt að tala við það á venjulegan og eðlilegan hátt.
Líkamleg merki um að andlát sé yfirvofandi eru skyndileg orkuköst, blóðþrýstingsfall, erfiðleikar við að kyngja, órói, öndunarörðugleikar, pirringur í lungum og hugsanlega getur viðkomandi ekki haft stjórna á hægðum og þvagi.
Síðustu klukkustundirnar verður andardrátturinn mjög óreglulegur og húðin verður köld viðkomu.
Þrátt fyrir að hinn deyjandi sé að kveðja þá er hann oft mjög rólegur og yfirvegaður.