Þann 3. apríl var bíll sprengdur í loft upp á einni af aðalgötum Melitopol. Í honum var Maksym Zubarev, Úkraínumaður sem er leiðtogi á hernumdum svæðum í Úkraínu. Hann var meðal þeirra sem ákváðu að starfa með Rússum eftir að þeir réðust inn í Úkraínu.
Þann 5. apríl fundaði Vladímír Pútín með leiðtogum hernumdu svæðanna í tengslum við fund hans með hinu valdamikla öryggisráði. Hann hefur greinilega miklar áhyggjur af stöðu öryggismála á hernumdu svæðunum. „Óvinurinn notar allar aðferðir til að hræða fólk, þar á meðal nýnasískar. Það verður að svara þessu af ákveðni og á áhrifamikinn hátt. Við verðum að ná tökum á ástandinu,“ sagði hann.
Meðal fundarmanna voru Volodymyr Saldo og Yevgeny Baltiskyy en Pútín gerði þá að leiðtogum þeirra svæða í Kherson og Zaporrizjsja sem Rússar hafa á sínu valdi. Þeir voru áhyggjufullir að sjá og ekki að ástæðulausu. Saldo varð að flýja í skyndinu í nóvember þegar Úkraínumenn náðu Kherson á sitt vald. Sama dag var næstráðandi hans, Kirill Stremousov, drepinn í því sem Rússar segja hafa verið bílslys en ber öll merki morðtilræðis.
Um miðjan mars var bíllinn, sem Ivan Tkatsj, var í sprengdur í loft upp. Rússar höfðu falið honum að skipuleggja flutning á rússneskum hersveitum til víglínunnar. Úkraínskir andspyrnumenn lýstu yfir ábyrgð á tilræðinu.
Svona mætti lengi telja og líklegt verður að teljast að Úkraínumenn séu hvergi nærri hættir að reyna að gera út af við þá sem starfa með hernámsliðinu.