Það skapaðist ólgusjór á samfélagsmiðlum í gær í kjölfar þess að Arsenal birti myndband af leikmönnum liðsins árita treyju ungrar stúlku.
Stúlkan unga er stuðningsmaður Arsenal og fékk þann heiður að leiða leikmenn inn á völlinn gegn West Ham um helgina. Því fylgir að fá að hitta leikmenn og þess háttar.
Hún stóð með treyju og fékk áritun frá öllum leikmönnum fyrir leik. Leikmenn þóttu hins vegar ekki gefa henni nokkurn gaum og fengu þeir á baukinn fyrir.
Arsenal útskýrir hins vegar málið og segja að treyjuáritunin hafi aðeins verið „hluti af heilum degi með liðinu.“
Þá kemur faðir stúlkunnar félaginu til varnar. „Dóttir mín átti yndislegan dag. Það var lítill tími til að hitta leikmenn en hún naut þess mjög.
Martin Ödegaard er hennar uppáhalds leikmaður svo að fá að leiða hann inn á var einstakt.“