Enskir miðlar fjalla í dag um ummæli Age Hareide, landsliðsþjálfara Íslands um Gylfa Þór Sigurðsson. Áfram er þó breskum blöðum meinað að nafngreina Gylfa.
Áfram er fjallað um fyrrum leikmann Everton og að mál gegn honum hafi verið fellt niður í síðustu tviku eftir tæplega tveggja ára rannsókn.
Enskir miðlar fjalla um ummæli Hareide en geta ekki nefnt hann á nafn, þar sem það myndi beina spjótunum að Gylfa.
433.is spurði enskan blaðamann í gær um hvort á einhverjum tímapunkti ensk blöð geti nafngreint Gylfa, tjáði hann blaðamanni að það væri bann við því. Ensk blöð geti aðeins nafngreint Gylfa ef hann kemur sjálfur fram og segi frá málinu .
„Í fyrsta lagi er gott fyrir hann að málinu sé lokið. Ég vorkenndi honum mikið. Ég hef hitt hann og hann er góður náungi, frábær fótboltamaður,“ sagði Hareide um Gylfa í gær.
„Hann verður að ákveða hvort hann vilji spila fótbolta aftur. Ef hann gerir það verður hann í mínum plönum.“