Samtökin Íslenskur Toppfótbolti hafa legið undir mikill gagnrýni undanfarið vegna þess hvernig þau standa að umgjörð um kvennaknattspyrnu.
Um er að ræða hagsmunasamtök fyrir tvær efstu deildir karla og kvenna í knattspyrnu.
Í auglýsingu Bestu deildanna í vor voru konur í aukahlutverki og svo var enginn Fantasy leikur fyrir kvennadeildina, líkt og er fyrir Bestu deild karla. Svona mætti áfram telja.
Leikmenn í deildinni ákváðu því að mæta ekki að taka upp markaðsefni fyrir Bestu deild kvenna þega ÍTF boðaði það á dögunum.
Stjórn knattsspyrnudeildar Breiðabliks fagnar umræðunni og hefur gefið út yfirlýsingu. „Stjórn knattspyrnudeildar Breiðabliks fagnar af heilum hug aukinni umræðu og áhuga á knattspyrnu kvenna, hvort sem það snýr að kynningarmálum, aðstöðumálum eða öðru,“ segir meðal annars í henni.
„Á síðustu árum hefur leiknum sannarlega verið breytt þannig að áhugi og áhorf á knattspyrnu kvenna hefur aukist verulega. Af þeim sökum er mikilvægt að allir sem að því verkefni koma séu samstíga og gæti vel að framsetningu og markaðssetningu enda er auðvelt að misstíga sig og falla út af sporinu. Nú skiptir máli að ÍTF, félögin og leikmenn nái að byggja upp traust sín á milli og að lærdómur verði dreginn af atburðarrás síðustu daga. Knattspyrnudeild Breiðabliks mun beita sér í þeirri vegferð.“
Um helgina boðaði ÍTF forsvarsmenn félaga á fund með það fyrir augum að ná sáttum fyrir komandi keppnistímabil.
Yfirlýsing Breiðabliks í heild
Stjórn knattspyrnudeildar Breiðabliks fagnar af heilum hug aukinni umræðu og áhuga á knattspyrnu kvenna, hvort sem það snýr að kynningarmálum, aðstöðumálum eða öðru. Þar má sérstaklega nefna eftirtektarverða samstöðu fyrirliða í Bestu deild kvenna undanfarna daga.
Knattspyrnudeild Breiðabliks leggur áherslu á að í þeim samtökum eða verkefnum sem félagið er aðili að sé ætíð fyllsta jafnréttis gætt og að aldrei halli á hvort kyn.
Á síðustu árum hefur leiknum sannarlega verið breytt þannig að áhugi og áhorf á knattspyrnu kvenna hefur aukist verulega. Af þeim sökum er mikilvægt að allir sem að því verkefni koma séu samstíga og gæti vel að framsetningu og markaðssetningu enda er auðvelt að misstíga sig og falla út af sporinu. Nú skiptir máli að ÍTF, félögin og leikmenn nái að byggja upp traust sín á milli og að lærdómur verði dreginn af atburðarrás síðustu daga. Knattspyrnudeild Breiðabliks mun beita sér í þeirri vegferð.
Við í Breiðabliki höfum á vettvangi KSÍ og annars staðar talað fyrir sjónarmiðum jafnréttis og jafnræðis með margvíslegum tillöguflutningi og umræðu og munum halda því áfram af öllu okkar afli. Við viljum eiga gott samstarf með öllum þeim sem vilja vinna að vexti og hag knattspyrnu kvenna og halda áfram að leggja okkar af mörkum en um leið vera óhrædd við að benda á það sem betur má fara.
Yfirlýsing frá stjórn knattspyrnudeildar.https://t.co/UVeshEVelo
— Breiðablik FC (@BreidablikFC) April 18, 2023