Óeining er sögð ríkja innan Handknattleikssambands Íslands um hver á að verða næsti landsliðsþjálfari karlaliðsins. Guðmundi Guðmundssyni var sagt upp störfum í febrúar eftir dapran árangur á HM í Svíþjóð og Póllandi.
Morgunblaðið greinir frá því í dag að Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, sé efstur á blaði hjá nokkrum forystumönnum HSÍ en aðrir vilji fá erlendan þjálfara. Fullyrt er að sambandið hafi rætt við Snorra, Dag Sigurðsson og Svíann Michael Apelgren en ljóst þyki að hann tekur ekki við liðinu.
Meðal annarra erlendra þjálfara sem nefndir hafa verið til sögunnar eru Christian Berge, fyrrum landsliðsþjálfari Noregs, og er hann sagður efstur á blaði hjá þeim sem horfa til erlends þjálfara. Þá horfi HSÍ einnig til Danans Keld Wilhemsen sem er aðstoðarþjálfari GOG.
Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að engar formlegar viðræður hafi farið fram við neinn þjálfara og mun það stafa af því hversu illa gengur að sammælast um nýjan þjálfara liðsins.