Manchester United ætlar að vera með í baráttunni um Jude Bellingham, einn eftirsóttasta leikmann heims. The Times heldur þessu fram.
Bellingham er á mála hjá Borussia Dortmund en tímaspursmál er hvenær hann fer þaðan.
Þrátt fyrir að vera aðeins 19 ára gamall hefur Bellingham verið einn besti miðjumaður heims undanfarið og sýndi hann stórkostlega takta á HM í Katar í fyrra, svo eitthvað sé nefnt.
Bellingham var lengi vel helst orðaður við Liverpool og Real Madrid en fyrrnefnda liðið hefur dregið sig úr kapphlaupinu.
Þá hefur Manchester City verið nefnt til sögunnar í þessu samhengi, auk fleiri félaga.
The Times segir hins vegar að United ætli sér að vera með í kapphlaupinu.
Talið er að Dortmund vilji um 130 milljónir punda fyrir Bellingham.
Englendingnum unga liggur ekkert á að taka ákvörðun um framtíð sína. Hann er til í að bíða í ár til viðbótar ef það er það sem þarf til að hann fái félagaskiptin sem henta honum best.