Árna Helgasyni, lögmanni og hlaðvarpsstjórnanda, brá heldur betur í brún í morgun þegar hann fékk ekki heimild á kort sitt fyrir appelsínusafa sem hann hugðist kaupa fyrir son sinn.
Árni segir frá þessu á Twitter:
„Gott móment á kassanum í Hagkaup í morgun að fá ekki heimild á kortinu fyrir appelsínusafa handa syninum. Skoðaði færsluyfirlitið og sá þá skýringu, kallinn var greinilega stór um helgina, straujaði milljón í Byko og 176 þús. á Bæjarins Bestu. Sé ekki eftir neinu,“ segir Árni.
Allt á sér þetta þó eðlilegar skýringar og er Árni langt því frá sá eini sem hefur lent í þessu að undanförnu.
Málið á rætur sínar að rekja til villu sem kom upp eftir að staðlabreytingar voru gerðar á íslensku krónunni í greiðslukerfum um helgina. Voru aukastafir við íslensku krónuna felldir á brott.
DV þekkir dæmi þess að kona sem keypti matvöru í Bónus fyrir 9.040 krónur hafi lent í því að heimild var sótt á kortið fyrir 904 þúsund krónum. Þá hefur fólk á Twitter bent á sambærileg dæmi. Þannig var einn rukkaður um 1.399.600 krónur í Byko og annar um 506.800 krónur í Blómaval.
Gott móment á kassanum í Hagkaup í morgun að fá ekki heimild á kortinu fyrir appelsínusafa handa syninum. Skoðaði færsluyfirlitið og sá þá skýringu, kallinn var greinilega stór um helgina, straujaði milljón í Byko og 176 þús. á Bæjarins Bestu. Sé ekki eftir neinu.
— Árni Helgason (@arnih) April 17, 2023