Peter Schmeichel, goðsögn Manchester United, var virkilega óánægður með fyrirliða liðsins, Harry Maguire, á fimmtudag.
Man Utd spilaði þá við Sevilla í Evrópudeildinni í leik sem lauk 2-2 og meiddist varnarmaðurinn Lisandro Martinez í seinni hálfleik.
Leikmenn Sevilla sáu um að bera Martinez af velli, eitthvað sem Schmeichel var alls ekki sáttur með.
Schmeichel vildi sjá fyrirliðann bera ábyrgð á sínum liðsfélaga þar sem leikmenn Sevilla voru með eitt í huga; að halda leiknum áfram.
,,Það lítur út fyrir að leikmenn Sevilla séu að vera vinalegir með því að bera hann af velli en það var ekki þannig. Þeir vildu koma honum útaf svo þeir gætu haldið áfram að spila,“ sagði Schmeichel.
,,Leikmenn Man Utd hefðu átt að stöðva þetta, þarna vantar leiðtoga á vellinum. Harry Maguire átti að koma í veg fyrir þetta.“