Dæmi eru um að starfsfólk fletti upp að tilefnislausu í lyfjagrunni til að kanna lyfjanotkun hjá þjóðþekktu fólki. Þetta kemur fram í frétt Morgunblaðsins. Blaðið hefur undir höndum gögn „sem sýna það sem kalla má tilefnislausar uppflettingar (í fleirtölu) í lyfjagátt, þar sem starfsmenn í apótekum hafa flett upp þjóðþekktu fólki án þess að viðkomandi einstaklingar hafi átt þangað erindi og án þess að sala á lyfjum hafi farið fram.“
Landlæknir ber ábyrgð á lyfjagáttunni en embættið staðfestir í svari við fyrirspurn Morgumblaðsins að því hafi borist ábendingar um að upplýsinga úr lyfjagátt hafi verið aflað að óþörfu og þeim dreift til þriðja aðila. Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, staðfestir einnig að stofnuninni hafi borist sambærilegar ábendingar.
Í fréttinni kemur fram að ekki sjáist hver fletti upp í gáttinni þó að hægt sé að sjá hvar og hverjum er flett upp.