Eins og flestir vita eftir daginn í dag er Gylfi Þór Sigurðsson laus allra mála. Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, tjáði sig um málið við 433.is í dag, en samkvæmt reglum er ekkert því til fyrirstöðu að hann verði valinn í landsliðið á ný.
Gylfi var þann 16. júlí árið 2021 handtekinn á heimili sínu í Manchester, var honum gefið að sök að hafa brotið gegn ólögráða einstaklingi.
Eftir rúma 600 daga í farbanni frá Bretlandi er Gylfi frjáls ferða sinna og málið látið niður falla, taldi saksóknari engar líkur á sakfellingu í málinu.
„Ég hef ekki náð að kynna mér þetta almennilega í dag. Ég hef verið á hlaupum og í þessu þjálfaramáli, sem ég er glöð að hafi leyst á farsælan hátt. Ég vil í raun ekki segja meira um það fyrr en ég er búin að kynna mér þetta betur,“ sagði Vanda nú fyrir skömmu.
Gylfi hefur ekki spilað fótbolta í hart nær tvö ár og því ekki sjálfgefið að hann snúi aftur á völlinn. Vilji hann hins vegar snúa aftur í landsliðið og vilji nýr landsliðsþjálfari, Age Hareide, velja hann er því ekkert til fyrirstöðu.
„Reglur KSÍ kveða á um það að ef ekkert mál er í gangi þá má landsliðsþjálfarinn velja hann. Þannig er staðan með Gylfa.
Það er ekkert mál í gangi. Kjósi landsliðsþjálfarinn að velja hann þá má það.“