Gylfi Þór Sigurðsson er frjáls ferða sinna eftir langa rannsókn lögreglunnar í Manchester. Var Gylfi grunaður um kynferðisbrot og hafði verið undir rannsókn í tæp tvö ár.
Gylfi Þór var handtekinn á heimili sínu í Manchester þann 16 júlí árið 2021, hann hélt ávallt fram sakleysi sínu og er nú laus allra mála.
Gylfi var í farbanni frá Bretlandseyjum allan þennan tíma en er nú laus ferða sinna. Svona var tímalína málsins.
Tímalínan í málinu:
16.júlí 2021: Gylfi Þór handtekinn í Manchester
Föstudaginn 16. júlí var Gylfi handtekinn af lögreglunni í Manchester vegna gruns um kynferðisbrot gegn ólögráða einstaklingi. Eftir skýrslutöku hjá lögreglunni var Gylfi látinn laus gegn tryggingu.
17.júlí 2021: Samfélagsmiðlar byrja að slúðra
Netverjar ýja að því á samfélagsmiðlum að Gylfi Þór Sigurðsson hafi verið handtekinn af lögreglunni í Manchester vegna gruns um kynferðisbrot gegn barni. Húsleit hafi verið gerð á heimili Gylfa Þórs samhliða handtökunni. Gylfi Þór lék ekki með Everton í æfingaleik þá helgi.
19.júlí 2021: Settur í leyfi hjá félagsliði sínu, Everton
Everton staðfestir að leikmaður liðsins hafi verið settur í ótímabundið leyfi hjá félaginu vegna lögreglurannsóknar. Skömmu síðar greinir Everton frá því að um sé að ræða 31 árs gamlan leikmann liðsins. Hringurinn þrengdist síðan enn frekar þegar Fabian Delph sagði að hann væri ekki umræddur leikmaður. Þá var Gylfi eini leikmaðurinn sem gat komið til greina í leikmannahópi liðsins.
20. júlí 2021: Nafnið birt í íslenskum fjölmiðlum
Íslenskir fjölmiðlar segja frá því að Gylfi Þór sé til rannsóknar hjá lögreglunni í Manchester vegna kynferðisbrots gegn barni. Gylfi Þór hefur ekkert tjáð sig um ásakanir í sinn garð. Breskir fjölmiðlar vitna í þá íslensku hvað nafngreininguna varðar.
11.ágúst 2021: Málið ennþá til rannsóknar
Lögreglan í Manchester staðfestir að mál Gylfa Þórs sé enn til rannsóknar hjá embættinu. Rætt hafði verið um að hann myndi mæta fyrir dómara 12. eða 13. ágúst en ekkert varð úr því. Næsta dagsetning í málinu er þá 16. október.
25. ágúst 2021: Ekki í landsliðshópnum
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins og Eiður Smári Guðjohnsen, þáverandi aðstoðarþjálfari landsliðsins, tilkynna landsliðshóp sinn fyrir komandi leiki í undankeppni HM 2022. Gylfi Þór er ekki í leikmannahópnum og Arnar Þór segist ekki hafa rætt við Gylfa síðan hann var handtekinn. Á fimmtudaginn síðastliðinn var svo sömu sögu að segja. Gylfi Þór var ekki valinn í næstu leiki liðsins gegn Armeníu og Liechtenstein .
11.september 2021: Ekki í hópnum hjá Everton
Everton sendir frá sér staðfestingu á leikmannahópi liðsins fyrir komandi keppnistímabil í ensku úrvalsdeildinni 1. september og var hópurinn birtur á vefsíðu félagsins laugardaginn 11. september. Þar er nafn Gylfa Þórs ekki að finna á meðal leikmanna í hópi liðsins. Þar af leiðandi lá fyrir að hann myndi ekki spila með félagsliði sínu fyrr en í upphafi næsta árs í fyrsta lagi. Nú hefur hins vegar komið í ljós að hann muni ekki spila aftur fyrir Everton þar sem að samningur hans við félagið rennur út í sumar.
Á þessum tímapunkti var búið að gefa það út að Gylfi Þór væri laus gegn tryggingu til 16. október en talið var að málið yrði tekið fyrir hjá dómara þann daginn, eða tilkynnt að málið hafi verið leyst utan dómstóla.
14.október 2021: Áfram laus gegn tryggingu
Á þessum tímapunkti var það gefið út að Gylfi yrði áfram laus gegn tryggingu og þannig hefur málið þróast undanfarna mánuði. Beðið hefur verið niðurstöðu en þegar kemur að þeirri dagsetningu sem gefin hefur verið út að ákvörðun verði tekin í málinu er gefið leyfi fyrir því að Gylfi verði áfram laus gegn tryggingu.
20.janúar 2022: Framlengt
Þann 20. janúar fyrr á þessu ári kom fram í svörum lögreglunnar í Manchester við fyrispurn Fréttablaðsins að Gylfi yrði áfram laus gegn tryggingu til 17. apríl næstkomandi. Fyrirkomulagið hefur nú verið framlengt fjórum sinnum en það var fyrst framlengt í ágúst, síðan í október og svo í janúar.
17.apríl 2022: Aftur framlengt
Tilkynnt var að Gylfi Þór yrði áfram laus gegn tryggingu þar til í júlí þetta var í þriðja sinn sem tryggingu er framlengt yfir Gylfa eftir að hann var handtekinn í júlí í fyrra.
1.júlí 2022: Án samnings
Samningur Gylfa Þórs við enska úrvalsdeildarfélagið Everton rann sitt skeið. Hann er nú án félags.
16.júlí 2022: Ár frá handtöku
Lítið var um svör á þessum tímapunkti og var enn. Gylfi hefur verið laus gegn tryggingu frá því skömmu eftir handtöku þann 16 júlí á síðasta ári og nýjustu vendingar í málinu hefðu átt að verða ljósar á þessum tímapunkti eftir því sem lögreglan á Greater Manchester svæðinu hafði gefið út.
14. október 2022: Lögreglan heldur spilunum þétt að sér
Talsmaður Lögreglunnar í Greater Manchester segir, í svari við skriflegri fyrirspurn Fréttablaðsins, að engar nýjar upplýsingar liggja fyrir um stöðu mála hjá Gylfa Þór Sigurðssyni en þarna höfðu 455 dagar liðið síðan hann var handtekinn í Bretlandi.
27. október 2022: Faðir Gylfa tjáir sig
Sigurður Aðalsteinsson, faðir Gylfa Þórs, tjáir sig í samtali við Fréttablaðið og segir að það geti ekki gengið í réttarríki að menn séu látnir dúsa í eitt og hálft ár erlendis án dóms og laga.
5 febrúar 2023 – Málið á borð saksóknara
Saksóknari í Bretlandi staðfestir að lögreglurannsókn sé lokið og að málið sé komið á borð þeirra, verði tekin ákvörðun um hvort málið verði fellt niður eða ákært verði í því.
14. apríl 2023 – Málið fellt niður
Lögreglan í Manchester staðfestir að málið hafi verið látið niður falla og að Gylfi Þór verði ekki ákærður. Gögn í málinu hafi ekki bent til þess að Gylfi yrði sakfelldur. Gylfi er laus úr farbanni en óvíst er hvort hann haldi áfram í fótbolta.