Gylfi Þór Sigurðsson er frjáls ferða sinna eftir langa rannsókn lögreglunnar í Manchester. Var Gylfi grunaður um kynferðisbrot og hafði verið undir rannsókn í tæp tvö ár.
„Maðurinn, sem er 33 ára, sem var handtekinn í tengslum við rannsókn sem hófst í júní 2021 er laus allra mála. Rannsóknarteymið og ríkissaksóknari hafa unnið saman og komist að þeirri niðurstöðu að sönnunargögnin sem liggja fyrir á þessum tíma ná ekki þeim þröskuldi sem settur er fram í reglum saksóknara,“ segir í yfirlýsingunni frá lögreglunni í Manchester sem Fótbolti.net birtir.
Gylfi Þór var handtekinn á heimili sínu í Manchester í júlí árið 2021, var hann grunaður um kynferðisbrot gegn ólögráða einstaklingi.
Lögreglan í Manchester rannsakaði málið um langt skeið og fór málið svo á borð saksóknara, sóknari taldi engar líkur á sakfellingu og málið látið niður falla.
Gylfi Þór var á þessum tíma leikmaður Everton en félagið setti hann til hliðar og hefur Gylfi ekki spilað fótbolta síðan. Samningur hans við Everton rann út síðasta sumar.
Gylfi hefur verið búsettur í London undanfarið en hann hefur ekki mátt ferðast frá Bretlandseyjum vegna málsins, nú er hann hins vegar frjáls ferða sinna. Líklegt er talið að Gylfi muni fara í skaðabótamál vegna þessa en hann hefur alla tíð haldið fram sakleysi.