The New York Times segir að samkvæmt upplýsingum sem koma fram í leyniskjölum sem var nýlega lekið frá bandaríska varnarmálaráðuneytinu komi fram að rússneski herinn hafi nýlega tekið upp bónusgreiðslur fyrir ákveðinn árangur á vígvellinum.
Fá hermennirnir greiddan bónus ef þeim tekst að eyðileggja skriðdreka sem NATO-ríki hafa sent Úkraínumönnum að undanförnu.
Þessar bónusgreiðslur eru liður í tilraun til að bæta móralinn og bardagalöngun hermannanna. Ekki fylgir sögunni hversu hár bónusinn er.
Einnig á að deila myndböndum, sem sýna þegar skriðdrekar frá NATO eru eyðilagðir eða herteknir af rússneskum hermönnum, grimmt á samfélagsmiðlum í þeirri von að það muni veikja baráttuanda og móral Úkraínumanna og Vesturlandabúa.