Björgólfur Thor Björgólfsson er ríkasti Íslendingurinn ef marka má ítarlega samantekt sem birtist í nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar sem kom út í dag. Eru eignir Björgólfs metnar á 300 milljarða króna. Á eftir Björgólfi Thor kemur Þorsteinn Már Baldvinsson og fjölskylda.
Úttektin í Frjálsri verslun tekur til 50 ríkustu Íslendinganna og byggist hún á áætlun á eigin fé viðkomandi auðmanna. Er þá átt við virði eigna umfram skulda. Tekið er fram í úttektinni að reynt hafi verið að notast við sambærilega aðferðafræði og fjölmiðlar á borð við Forbes nota í sínum listum.
Björgólfur Thor – 3oo milljarðar króna
Björgólfur hefur verið fastagestur á lista Forbes undanfarin ár yfir ríkustu einstaklinga heims. Tekið er fram í úttekt Frjálsrar verslunar að erfitt sé að meta umfang auðæfa Björgólfs enda á hann eignir um víðan heim. Hann hefur einbeitt sér að stóru leyti að fjárfestingum í tækni- og sprotafyrirtækjum á síðustu árum.
Þorsteinn Már og fjölskylda – 110 milljarðar króna
Þorsteinn Már Baldvinsson er sem kunnugt er forstjóri Samherja og hafa hann og fjölskylda hans auðgast mjög í gegnum fyrirtækið og fjárfestingar þess á liðnum árum. Aðaleigendur Samherja afhentu börnum sínum hlut í Samherja hf. árið 2020 en héldu sjálf eftir hlut í Samherja Holding. Samherji á meðal annars hluti í Síldarvinnslunni, Emskip, Sjóvá og Högum.
Kristján V. Vilhelmsson og fjölskylda – 110 milljarðar króna
Bræðurnir Þorsteinn og Kristján stofnuðu Samherja en sjálfur hefur Kristján gegnt starfi útgerðarstjóra fyrirtækisins. Auður Kristjáns og barna hans – rétt eins og Þorsteins og barna hans – er áætlaður sameiginlega 110 milljarðar króna.
Róbert Wessman – Yfir 100 milljarðar króna
Róbert Wessman byrjaði ungur í lyfjabransanum en á síðustu árum hefur hann leitt öran vöxt Alvogen og Alvotech. Róbert á líka eignir hér á landi í gegnum fjárfestingafélagið Flóka og þá á hann glæsihýsi í London, New York, Miami og í Frakklandi.
Guðbjörg Matthíasdóttir og fjölskylda – 80 milljarðar króna
Guðbjörg á Ísfélag Vestmannaeyja ásamt fjölskyldu sinni og ýmis önnur félög eða fyrirtæki. Þar má nefna hlut í Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins, og fyrirtækin ÍSAM, Ora og Myllunni, auk fjórðungshlutar í Domino‘s. Þá hafa félög í eigu Guðbjargar og fjölskyldu hennar átt hluti í Kviku, Arion og Íslandsbanka.
Guðmundur Kristjánsson – 75 milljarðar króna
Guðmundur er eigandi Útgerðarfélags Reykjavíkur og forstjóri og stærsti hluthafi Brims.
Davíð Helgason – 70 milljarðar króna
Davíð stofnaði fyrirtækið Unity og var forstjóri þess til ársins 2014. Eignarhlutur hans í félaginu er 2,4 prósent og metinn á 38 milljarða króna.
Ágúst og Lýður Guðmundssynir – 60 milljarðar króna
Björk Aðalsteinsdóttir og Þorsteinn Kristjánsson – 50 milljarðar króna
Sigurður Gísli og Jón Pálmasynir – 45 milljarðar króna
Ítarlega úttekt um 50 ríkustu Íslendingana má finna í nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar.