Verðmiðinn sem Borussia Dortmund hefur sett á Jude Bellingham fyrir sumarið er 130 milljónir punda. Þetta segir í enska götublaðinu The Sun.
Bellingham er aðeins 19 ára gamall en er einn besti miðjumaður heims og gífurlega eftirsóttur.
Englendingurinn hefur verið orðaður við mörg af stærstu félögum heims.
Liverpool var lengi vel eitt af þeim sem leiddu kapphlaupið en félagið hefur nú bakkað út og mun ekki fá Bellingham í sumar.
Á Englandi er hins vegar talið að Manchester City og United séu enn á höttunum á eftir leikmanninum, sem og Real Madrid á Spáni.
Fari Bellingham til Englands er ljóst að um met verður að ræða er kemur að félagaskiptum þangað. Dýrasti leikmaður í sögu ensku úrvalsdeildarinnar sem stendur er Enzo Fernandez, sem kom til Chelsea frá Benfica á 106 milljónir punda í janúar.