Þetta er mat Arne Bård Dalhagu, fyrrum yfirlautinants í norska hernum. Þetta byggir hann á því að Prigozhin ætlar, að sögn rússneska miðilsins Meduza, að taka yfir stjórn rússneska stjórnmálaflokksins „Réttlátt Rússland – Sannleikurinn“ sem hann á í vaxandi samstarfi við. Bandaríska hugveitan Institute for the Study of War (ISW) hefur einnig skýrt frá þessu.
Dalhaug sagði að þetta væri eitthvað sem Pútín kærir sig ekki um en um leið sé þetta ekki eitthvað sem hann þurfi að hafa áhyggjur af. En það er annað sem Pútín óttast að sögn Dalhaug og það getur orðið eldfimt, ekki síst fyrir Prigozhin.
Stuðningurinn við Prigozhin hefur aukist mjög í Rússlandi vegna þátttöku málaliða hans í Wagner í stríðinu í Úkraínu. Orðrómar hafa verið á kreiki um að hann geti hugsanlega tekið við forsetaembættinu af Pútín.
Dalhaug sagði að Pútín óttist ekki að tapa í kosningum en hann óttist hins vegar að fólk flykkist að baki einhvers, sem getur skorað hann á hólm, sem styrkist svo mikið að viðkomandi geti bolað honum úr forsetaembættinu í valdaráni.
Sérfræðingar hafa margir hverjir nefnt Prigozhin sem þannig mann.
Dalhaug sagði að ef pólitískur metnaður Prigozhin verður of mikill að mati Pútíns þá muni hann lifa hættulegu lífi. Mjög hættulegu.
„Eftir alla þá gagnrýni, sem hann hefur sett fram á hendur rússneska hernum, er hann talinn vandamál fyrir Kreml. Prigozhin hefur nú þegar farið yfir mörk Pútíns og ef hann verður pólitísk ógn er enginn vafi á að hann á morðtilræði yfir höfði sér. Það eru miklar líkur á að Prigozhin muni á dularfullan hátt hverfa eða detta út um glugga á næstu mánuðum. Það er heldur ekki útilokað að sprengjutilræði verði beint gegn honum þegar hann er í Úkraínu. Þá verður auðvelt fyrir Kremlverja að komast upp með það því þeir geta kennt Úkraínu um,“ sagði Dalhaug.