Síbrotamaður um fertugt var þann 3. apríl sakfelldur í Héraðsdómi Reykjavíkur yfir ýmis afbrot, meðal annars skrautleg skemmdarverk á íbúð sem hann leigði. Það brot átti sér stað í febrúar árið 2021. Skemmdi hann parket, anddyrishurð, sólbekk, veggi og loft í stofu, auk baðherbergishurðar í íbúð sem hann leigði í Reykjavík.
Nokkrum dögum síðar gerðist maðurinn sekur um að ryðjast inn íbúð, vopnaður óþekktu verkfæri, og skipaði íbúa að afhenda sér peninga. Hann hvarf síðan á braut með veski íbúans sem innihélt persónuskilríki, greiðslukort og eitthvert reiðufé, sem og Nokia-farsíma.
Maðurinn var einnig sakfelldur fyrir umferðarlagabrot.
Maðurinn á langan brotaferil að baki og í fyrra var hann dæmdur fyrir árás á lögreglumann sem átti sér stað á bráðadeildinni í Fossvogi, sem og fyrir bíræfið innbrot í Mosfellsbæ.
Öll þessi brot voru framin fyrir um tveimur til þremur árum. Fram kemur í dómnum sem féll þann 3. apríl að maðurinn hafi játað brot skýlaust fyrir dómi. Viðurkenndi hann einnig bótaskyldu. Leiddi þetta til þess að hann var dæmdur í skilorðsbundið 12 mánaða fangelsi en þarf ekki að sitja inni vegna þessara brota.
Hins vegar situr hann uppi með mikinn kostnað. Þarf hann að greiða tæplega 2,8 milljónir í skaðabætur vegna skemmdarverkanna á íbúðinni og 400 þúsund krónur í miskabætur vegna húsbrotsins og þjófnaðarins á veskinu.
Einnig þarf hann að greiða 830 þúsund krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins, ellegar sitja í fangelsi í 36 daga. Ennfremur þarf hann að greiða allan málskostnað, samtals tæplega 1,2 milljónir króna.
Maðurinn þarf því að greiða samtals hátt í sex milljónir vegna málsins og miðað við feril hans er erfitt að sjá hvernig hann getur verið borgunarmaður fyrir því.