Karl Bretakonungur er sagður vera orðinn „þreyttur og pirraður“ á Andrési bróður sínum sem neitar að yfirgefa glæsihýsi konungsfjölskyldunnar í Windsor.
Greint var frá því á dögunum að Andrési hafi verið krafinn um að flytja í Frogmore Cottage sem hefur verið aðsetur Harrys Bretaprins og eiginkonu hans, Meghan, á undanförnum árum.
Sú staðreynd að um miklu minna hús er að ræða virðist ekki heilla Andrés sem hefur neitað að flytja úr Royal Lodge í Windsor.
Page Six greinir frá því að Karl sé orðinn verulega þreyttur á bróður sínum en eins og kunnugt er afsalaði hann sé öllum hertitlum og hlutverkum innan fjölskyldunnar í fyrra. Það gerðist eftir að hann var sakaður um kynferðislegt ofbeldi af Virginiu Guiffre.
Andrés, sem er 63 ára, hefur búið í Royal Lodge frá árinu 2003 og vill hann búa þar áfram.
„Hann vill ekki fara því eignin er ákveðið stöðutákn innan konungsfjölskyldunnar,“ segir heimildarmaður Page Six. Vilhjálmur, sonur Karls og Díönu heitinnar prinsessu, er sagður hafa augastað á Royal Lodge og er talið nær öruggt að hann flytji þangað um leið og Andrés hefur sig á brott.
Heimildarmaður Page Six segir að Karl sé þreyttur á að standa í stappi við bróður sinn, enda hann hafi hann öðrum hnöppum að hneppa þessa dagana. Hann býr sig sem kunnugt er undir krýningarathöfnina í Westminster Abbey þann 6. maí næstkomandi en þá verður hann formlega krýndur konungur.