fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Fókus

Skjáskot af samskiptum við hrapp: Ísland er ekki undanþegið alls kyns netsvindlum – Þegar að Paul bauð mér tvær og hálfa millu á mánuði fyrir að vera vinur hans var ekki unnt að stilla sig

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Mánudaginn 10. apríl 2023 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Við sem erum eldri en tvævetra munum eflaust vel eftir nígerísku prinsunum sem þurftu svo átakanlega á hjálp okkar að halda.

Þessi svikamylla er með þeim elstu á netinu, fyrstu beiðnirnar fóru að bera með tölvupósti á níunda áratugnum, og var landinn ekki undanþeginn. 

Sögurnar voru yfirleitt ævintýralega vondar, viðkomandi var af kóngafólki eða öðrum auðmönnum kominn, átti milljónir á milljónir ofan en gat ómögulega komið höndum yfir féð, yfirleitt vegna vonds og illgjarns fólks. Hafði viðtakandi verið valinn sérstaklega vegna heiðarleika , guðhræðslu og óflekkaðs mannorðs, til að hjálpa prinsinum. 

Ekta Nígerubréf.

 

Var milljónum lofað aðeins ef móttakandi gæfi upplýsingar um bankareikning sinn til að unnt væri að ná fjárhæðinni úr landi, yfirleitt Nígeríu. Yfirleitt var lofað 30 til 50% af þessum milljónum dollara gegn því að hjálpa vesalings prinsinum. 

Bréfin voru ævintýralega illa skrifuð, enda enn langt í Google Translate, en þó féll fólk einstaka sinnum fyrir brellunni og tapaði stórfé í kjölfarið. 

Þótt ótrúlegt megi virðast eru ,,Nígeríubréfin” svonefndu enn að berast öðru hvoru, jafnvel þótt að flestir kveiki strax á perunni. 

Fleiri tegundir fjármálasvika

En svikahrappar á netinu eru sífellt að leita nýrra leiða til að svíkja fé út úr fólki. Hver kannast ekki við að hafa fengið póst um að hafa unnið millónir í lottói (sem viðkomandi tók aldrei þátt í) eða sambærilegt? 

Netsvindl á að mestu rætur sínar að rekja til Nígeríu, sem enn trónir á toppnum yfir netsvik, en þau eru stunduð víða um heim og fylgir Indland fast á hæla Nígeríu. 

Og með aukinni tækni hafa svikahrappar náð að þróa svikin til að gera þau trúanlegri. Sem dæmi má nefna pósta, sem virðast við fyrstu sýn koma frá aðilum á við Microsoft, um að það sé vírus í tölvunni og þú þurfir að hringja inn til að láta hreinsa vél þína

Ekki bara er fólk rukkað fyrir ,,þjónustuna” heldur er öllum þeirra persónuupplýsingum stolið, meðal annars bankaupplýsingum.

Símtöl frá ,,viðskiptabanka” sem kalla eftir pin númerum í ,,öryggisskyni” er einnig algengt svindl og má svo lengi telja. 

Ástarsvindlin

En stærsta svikamyllan í dag eru ,,ástarsvindl” sem á ensku kallast ,,romance scams” og árið 2022 segja opinberar tölur að 1,5 milljarður hafi verið svikin út á Vesturlöndum, bara árið það eina ár.  Þetta eru of mörg núll fyrir undirritaða að snúa yfir í íslenskar krónur, enda seint vel að sér í stærðfræði.  

Sennilegast er þó aðeins um brotabrot að ræða þar sem meirihluti fólks leitar aldrei til lögreglu og kærir, yfirleitt þar sem það skammast sín fyrir að hafa verið dregið á asnaeyrunum.

Ástarsvikin byrjuðu fyrir nokkrum árum og þá einna helst á stefnumótasíðum. Rúmlega tveir þriðju fórnarlamba eru konur og oft yfir fimmtugt, ekkjur eða fráskildar konur sem virðast líklegar til að vera einmana. Best er að þær eigi litla sem enga fjölskyldu sem hugsanlega gæti sáð fræjum efasemda eða jafnvel leitað til yfirvalda. 

Svo einbeitum okkur að svindi gegn konum.

Huggulegur maður hefur samband, dáist að fegurð dömunnar og persónuleika og vill halda samskiptum utan stefnumótasíðnanna. Hann er snöggur að verða ástfanginn af konunni, sendir  ástarjátningar, ljóð og eru biblívers einnig vinsæl. Oftar en ekki fygldi bónorð í kjölfarið, jafnvel eftir nokkra daga.

Oftast titlar maðurinn ekki konuna með nafni, ,,My queen“ eða ,,drottningin mín“ er vinsælast og er ástæðan sú að hver svikahrappur er með fjölda kvenna í takinu í einu og því erfitt að muna öll nöfnin. 

Vegabrésmynd, augljóslega tekin í bifreið? En sumir falla fyrir slíku.

Þessi afar huggulegi maður er  yfirleitt í öðru landi en konan, oft við störf á olíuborpalli eða sem verktaki og á milljónir á milljónir ofan. Það var einnig vinsælt að þykjast vera hermaður, og þá háttsettur.  En elskhuginn er sífellt að lenda í vanda, hann nær  ekki sambandi við banka sinn, þarf að greiða sjúkrahúskostnað, getur ekki greitt starfsmönnum sínum laun….sögurnar komu á færibændi.

Svo og skjölin….vegabréf, ökuskírteini, pappírar frá tolli eða skatti. Allt til að gera söguna trúanlega misvel ,,fótósjoppað.“

því miður hafa alltof margar einmana konur fallið fyrir slíkum sjarmörum og jafnvel orðið gjaldþrota á að senda svikahröppum  fé, bitcoin og kóða af gjafakortum, oftast frá Amazon, Apple eða Google Play. Gjafakortin eru geysivinsæl meðal svikhrappa, bæði vegna þess að þau eru órekjanleg auk þess sem það er líflegur markaður með þau á netinu og geta krimmarnir fengið 80 sent á dollarann. 

Aðrar hafa verið fengnar til að millifæra fé sem til þeirra er sent, sem á mannamáli kallast peningaþvottur og er kolólöglegur. 

Og enn aðrar sitja inni í löndum á við Tælandi, Malasíu og Víetnam fyrir fíkniefnasmygl.

Ætluðu þær að hitta elskhuga sína en beðnar að ,,kippa með sér tösku“ af samverkamanni, tösku fyllta efnum sem tollur viðkomandi lands var lítt hrifinn af. 

Mynd/Getty

Frá Ameríku til Evrópu

Lengi vel einbeittu svindlararnir sér að enskumælandi löndum, enda þægilegast. Og þótt ljótt sé frá að segja hafa svindlarar sem stigið hafa fram sagt að Kanarnir séu einfaldlega trúgjarnastir. Til að mynda megi ljúga að þeim að yfirvöld í Belgíu eða Austurríki haldi fólki föngnu og kalli eftir greiðslu til að losa það úr haldi. Slíku eiga Evrópubúar erfiðara með að trúa. 

En enskumælandi lönd á við Bandaríkin, Kanada, Bretland og Ástralíu eru farin að taka mun harðar á svikum, ekki síst ,,ástarsvindlum” og hafa því svikahrapparnir snúið sér í auknum mæli til Evrópu, sem hefur verið seinni til í lagasetningum gegn slíku. 

Og Ísland er þar ekki undanskilið.

Ekki eru allir Tinder svindlarinn

Sum svik eru ævintýralega flókin og það vel framkvæmd og trúanleg, að hámenntaðar og afar vel greindar konur falla fyrir þeim. Má þar nefna Tinder svindlarann en heimildamynd á Netflix um hans pretti varð gríðarlega vinsæl á Íslandi, svo sem annars staðar.

What is Simon Leviev, Netflix's Tinder Swindler, doing now? He posed as a billionaire's son, conned dozens of women out of thousands and has since deleted his Instagram | South China Morning
TInder svindlarinn Simon Leviev.

Önnur eru öllu slælegri í framkvæmd.

Sú er þetta ritar er mikil áhugamanneskja um slík svindl og hefur fengið sinn skammt í gegnum hinar ýmsu leiðir. 

Enn eru stefnumótaforritin vinsæl en þar sem ég hef hef aðeins prófað Tinder, og það takmarkað, hef ég aðeins fengið eitt kostaboð þaðan.

Var það fyrsta ástarsvindlið sem rataði til mín eftir stafrænum leiðum. 

Stóreignaekkillinn í Bretlandi

Það kom árið 2017 og var ég þá stödd í Noregi. Sendandi var breskur ekkill, sem hafði misst unga konu sínu rétt ári eftir brúðkaup þeirra. Hafði hún fengið bráðakrabbamein, látist í örmum hans og skilið eftir nýfæddan son þeirra. Móðurlausan. Ég gat orðið móðirin sem blessað barnið þurfti svo sárlega á að halda. 

Sá var afar huggulega útlítandi, hann bað mér guðsblessunar í fyrstu setningu og lofað mjög fegurð mína og augljósa góðmennsku og guðstrú.

Það ku eiginlega skothelt að sendingin komi frá Nígeríu, sé byrjað að tala um guðstrú, enda mun slíkt hafa gengið vel í dömur vestan hafs í gegnum tíðina.

Bretinn átti stóreignir víða um heim og svo vildi til að ein eigna hans var í Osló. Ég svaraði og sagðist nú ekki vera norsk og á heimleið, laug því reyndar að vera hollensk, og ótrúlegt en satt þá átti Bretinn einnig eignir í Hollandi. 

Ég svaraði því til að ég væri upptekin kona, best væri að flýta þessu og hvað hann væri nákvæmlega á eftir hárri upphæð.

Myndarlegi ekkillinn svaraði ekki og var snöggur að loka reikning sínum og skella í lás.

Víða um heim, sérstaklega í Nígeríu og á Indlandi eru salirnir fullir af fólki sem gera ekkert annað en að svinlda fé úr úr saklausu fólki.

Auðvelt að uppgötva svindlara

Slatti kemur inn á gmail en fer beint í rusl og er því aldrei lesið.

Hellingur berst í gegnum Facebook en ég tók mig til og læsti þar öllu í drasl.

Og ég þori að fullyrða að ég tali fyrir hönd fjölda kynsystra mínna þegar ég segi að það berast 5 til 20 vinabeiðnir á dag sem hreinlega öskra á mann að þar séu svikarar á ferð. 

Einfaldasta leiðin er að sjá hversu mikil virkni er á síðunni, hve margar myndir og hver margir vinir. Svo að segja allir þessir hrappar eru með tóma síðu, eina til tvær myndir og vart meira en fimm vini. Sé prófílmynd þeirra sett í ,,reverse image search,” til að mynda á Google finnst oftar en ekki hinn raunverulegi einstaklingur sem á myndinni er. 

Þeir eru ekki tiltakanlega frumlegir sem stunda þetta.

Yfirleitt er um unga pilta að ræða, allt niður í 15 ára gamla, sem búa yfir takmarkaðri enskukunnáttu en fá leiðbeiningabæklinga til notkunar.

Og virðast yfirmenn þeirra ekki tiltakanlega duglegir við að uppfæra kennslugögnin.

Var bara ekki að nenna þessu

Það var heilsað, gasalega var ég falleg, viðkomandi gat ekki stillt sig við að sjá slíka fegurð, var ekkill/fráskilinn og vildi vita allt um mig. Stundum fylgdu hjarta emoji eða bútar úr ljóðum eða biblíunni. 

Jafnvel linkar á væmin lög á Spotfy. 

Flestu þessi henti ég og blokkaði viðkomandi en einstaka sinnum var, og er, gaman að atast í þeim.

Þeir eru  misgóðir verð ég að segja, sumir þeirra sem  kynntu sig sem Breta voru til að mynda vart skrifandi á enska tungu. Svo voru þeir sem voru eiginlega ekki að nenna þessu. 

Einn situr í mér.

Sá var svo að segja óskrifandi á ensku, reyndar það arfaslakur að ég næstum vorkenndi honum. Eftir nokkrar setningar var þetta orðið óbærilega vandræðalegt svo ég spurði hann hvernig veðrið væri í Lagos – höfuðborg Nígeríu – þessa dagana.

Hann sagði það bara bærilegt, búið að rigna mikið, þakkaðimér fyrir að spyrja, og sagði til nafns. 

Svo mikið skildi ég að hann var 17 ára, nýbyrjaður í gigginu og þótti það hörmung.

Ég kvaddi hann með virktum og bað hann í guðslifandi bænum að afla sér menntunar og/eða finna sér heiðarlega vinnu.  Hann jánkaði af svo miklum móð, að ég kýs að trúa að nú sé hann í námi í rafvirkjun eða bókhaldi. 

En atvinnuöryggi svikahrappanna hefur farið snarminnkandi með aukinni meðvitund og þarf ekki annað en að slá inn leitarorðin romance scams til að vita allt um það. 

Sérstaklega er að finna áhugavert efni á YouTube

Nýjar og frumlegri leiðir

Svo nú fóru þeir að detta inn um aðrar leiðir.

Linkedin varð uppáhald, enda ekki beinlínis vefsvæði sem maður tengir við ást og rómantík, en á örskotsstundu margfölduðust skilaboð þar.

Einnig hefur maður heyrt af þvi að svikarar noti leiki á netinu til að komast í samband við fórnarlömb en í flestum þeirra er unnt að spjalla við aðra leikmenn.

Ég hélt nú reyndar að ég væri búin að sjá allar tegundir af svindli og svínaríi þegar ég fékk merkilega sendingu á Instagram í síðustu viku. Ég viðurkenni að vera ekki mjög virk á þeim ágæta miðli svo eflaust hafa einhverjir gullmolar farið framhjá mér. 

En þetta var nýtt og óvenjulegra að því leiti að svindlinu var beint að yngri konum. Og þvílíkt kostaboð!

Ef ég vildi vera ,,sugarbaby” – þó án alls þess er kynferðislegt má teljast, líkt og að senda nektarmyndir og annað slíkt – var ,,Paul” reiðubúinn að greiða mér 5 þúsund dollara á viku, eða um 700 þúsund krónur íslenskar.

Plús önnur útgjöld. 

Það eina sem ég þurfti að gera var að spjalla við ,,Paul” þegar hann væri einmana.

Slíkt vildarboð er óneitanlega lokkandi.

Hinn stórglæsilegi og örláti ,,Paul“

Gat ekki stillt mig

Ég spurði bæði dóttur mína og nokkrar vinkonur hvort þeim hefði borist sambærilegt og þær héldu það nú. Þetta er víst landlægur andskoti um þessar stundir og þegar við bárum saman bækur okkar voru öll skilaboðin svo að segja samhljóða Það eina sem skildi þau að var nafnið og myndin sem fylgdi.

Mér leiddist þennan daginn og ákvað að atast svolítið í ,,Paul.“ Þar sem ég hef stundum ekki getað stillt mig um slíkt, mig hef ég skapað mér prófíl að grípa til. 

Ég var trúlofuð en unnusti minn dó og hef ég aldrei jafnað mig, ég vinn í blómabúð, á púðluhunda og annast aldraða móður mína. 

Hér má sjá brot af þeim samskiptum sem ég átti við hinn ágæta ,,Paul.“

Eru þeir sem ekki eru enskumælandi beðnir afsökunar en mér til varnar er þessi ,,snilld” illþýðanleg.

Lokkandi, ekki satt? En hvað með fyrirframgreiðslu?

 

Paul lét móðann mása en skautaði alveg framhjá fyrirframgreiðslunni.

Þetta gekk lengi vel svona. ,,Paul“ sendi meira að segja myndi af konum við Ferrari og Lamborghini bifreðar sem hann kvaðst hafa keypt handa þeim .

En ekki leið á löngu þar til ,,Paul“ hafði meiri áhuga á minni peningaeign.

 

Enn var lítið um svör um fyrirframgreiðsluna en bílamyndirnar komu í hrönnum. En ég var ekki á því að gefast upp.

 

 

Mér finnst hvað leiðast að hafa ekki varðveitt myndskeiðið sem ,,Paul“ sendi mér.

Það var af glæsilegri ungri konu að láta móðan mása um hversu æðislegt líf hennar væri eftir kynnin við Paul en röddin var langt því frá að vera i takt við varahreyfingar hennar,. Myndbandið var reyndar svo illa sett saman að ég frussaði kaffinu yfir tölvuna i hláturskasti.

Og þá kom að næsta fasa. Manninum sem sá um peningamál ,,Paul“ – nema hvað? Maðurinn enda stórefnaður verktaki!

 

Þegar þarna var komið var mér farið að leiðast þófið og ákvað að binda enda á samtalið enda orðið nett flökurt.

 

 

Viðurkenni alveg að orðbragðið er ekki til fyrirmyndar en finnst þessir einstaklingar ekki eiga neitt betra skilið.

Það þarf vart að taka fram að ,,Paul“ hvarf af Instagram á núlleinni.

Ég ákvað að kanna málið betur og líkt og önnur svindl og svínarí á netinu er mynstrið hið sama.

Fórnarlambið er beðið um að að greiða nokkur hundruð dollara til að ,,sanna sig og heilindi sín“ og koma rukkanir fyrir alls kyns bankagjöld, millifærslugjöld, tollagjöld – allt gjöld sem ekki eru í raun til en sögð bara smáræði þar til fórnarlambið fær stórfé í hendurnar.

Svo ég fæ líklegast aldrei 700 þúsund krónur á viku frá Paul, hvað þá Ferrari eða Lamborghini bifreið. Ég verð því að halda mig á DV enn sem komið er. Föst í afborgunum af notuðum Kia.

PS: Ég var nú ekki að nenna að blanda Interpol, Instagram né öðrum í málið enda djókið búið.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram
Fókus
Fyrir 2 dögum

Selena Gomez trúlofuð

Selena Gomez trúlofuð
Fókus
Fyrir 3 dögum

Gefur Bríet falleinkunn fyrir tónleika – „Stundum var líkt og söngkonan syngi í gegnum nefið“

Gefur Bríet falleinkunn fyrir tónleika – „Stundum var líkt og söngkonan syngi í gegnum nefið“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Megan Fox sá eitthvað óviðeigandi í síma MGK og hætti með honum – Er ítalska kyntröllið nýi kærastinn?

Megan Fox sá eitthvað óviðeigandi í síma MGK og hætti með honum – Er ítalska kyntröllið nýi kærastinn?
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sagan af Kóngsa geimfara er ný barnabók eftir Laufeyju Arnardóttur

Sagan af Kóngsa geimfara er ný barnabók eftir Laufeyju Arnardóttur
Fókus
Fyrir 4 dögum

Ragnar fékk áfall þegar vaktfélagi hans svipti sig lífi – „Hann bjargaði mörgum mannslífum, af hverju gat ég ekki bjargað hans?“

Ragnar fékk áfall þegar vaktfélagi hans svipti sig lífi – „Hann bjargaði mörgum mannslífum, af hverju gat ég ekki bjargað hans?“