Í gær var tilkynnt til lögreglunnar um mann sem var að reyna komast inn á stigagang í hverfi 110 í Reykjavík. Lögregla kom á vettvang og fannst maðurinn ekki. Stuttu síðar barst önnur tilkynning um að sami maður hefði komist inn á heimili í hverfi 110 og hefði tekið þar bíllykla.
Maðurinn ók síðan á brott á bílnum. Lögregla mætti bílnum og var ökumanni gefið merki um að stöðva akstur sinn sem hann gerði ekki og hófst þá eftirför. Eftirförin fór frá hverfi 110 og endaði í hverfi 101 þar sem maðurinn var handtekinn. Mikil umferð var á þessum tíma og var akstur ökumanns stórhættulegur en hann ók á hraðanum 140-170 km/klst þar sem hámarks aksturshraði er 60 km/klst. Maðurinn er einnig grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Gistir hann nú fangageymslu lögreglu í þágu rannsóknar málsins.
Frá þessu greinir í dagbók lögreglu en þar segir einnig frá því að leigubílstjóri hafði samband við lögreglu vegna þess að farþegi í bíl hans vissi ekki hvar hann átti heima.
Þá var tilkynnt um mann sem var að skoða inn í bíla við Kringluna. Var maðurinn æstur og öskraði út í loftið. Lögregla fór á vettvang og róaði manninn.
Tilkynnt var um rafskútuslys í miðborginni. Maður datt af hjóli sínu og hlaut áverka í andliti. Var hann fluttur á slysadeild til frekari aðhlynningar.