Antonio Cassano, fyrrum landsliðsmaður Ítalíu, er klárlega enginn aðdáandi Jose Mourinho, stjóra Roma.
Mourinho er orðaður við endurkomu til Real Madrid ef Carlo Ancelotti fer í sumar en hann stýrði liðinu áður frá 2010 til 2013.
Mourinho hefur náð ágætis árangri með Roma og vann til að mynda Sambandsdeildina árið 2022.
Cassano telur þó að Mourinho sé búinn að missa ástríðuna fyrir boltanum og að hann ætti ekki að koma til greina sem arftaki Ancelotti.
,,Hann gæti snúið aftur til Real Madrid ef Ancelotti ákveður að hætta en ef þeir vilja fá alvöru stjóra þá hringja þeir ekki í Mourinho fyrir það verkefni,“ sagði Cassano.
,,Mourinho er drullusama um fótbolta. Hann vill ekki vinna sína vinnu, hann veit ekki hvernig á að tjá sig svo við skulum ekki láta söguna blekkja okkur.“