Veðurspáin fyrir páskana er farin að taka á sig æ skýrari mynd og má búast við því að það verði heldur þungbúið víða um land.
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir í samtali við Morgunblaðið í dag að besta veðrið verði á Norður- og Austurlandi.
„Þá lofar Akureyri og Eyjafjarðarsvæðið góðu. Þar verður vorblíða á skírdag, en reikna má þó með að skíðasnjó taki fljótt upp,“ segir Einar.
Veðrið verður að líkindum best á morgun, skírdag, en þá er gert ráð fyrir hæglátu veðri víðast hvar. Á sunnan- og vestanverðu landinu eru líkur á éljum á láglendi en úrkomulaust verður fyrir norðan og austan og aðstæður til útivistar eins og best verður á kosið á þessum árstíma.
Hér að neðan má sjá veðurhorfur á landinu næstu daga eins og þær birtast þennan morguninn á vef Veðurstofu Íslands.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á fimmtudag:
Hæg suðvestlæg eða breytileg átt. Dálítil él í flestum landshlutum Hiti 0 til 6 stig, en vægt frost norðan heiða. Vaxandi suðaustanátt sunnantil um kvöldið.
Á föstudag:
Suðaustan 13-20 m/s, hvassast með suðurströndinni. Rigning sunnan- og vestanlands, talsverð rigning suðaustanlands. Hægari og úrkomulítið norðaustantil. Hiti 3 til 9 stig.
Á laugardag:
Sunnanátt, 8-15 m/s, hvassast suðvestantil. Rigning, en að mestu þurrt fyrir norðan. Hiti 4 til 10 stig.
Á sunnudag:
Ákveðin suðaustanátt með rigningu um landið sunnanvert, en lengst af þurrt fyrir norðan. Hiti breytist lítið.
Á mánudag:
Útlit fyrir norðaustlæga átt og vætu í öllum landshlutum. Hiti 2 til 7 stig.
Á þriðjudag:
Líklega suðvestlæg átt með éljum, en þurrt að kalla austanlands.