Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, hefur gefið sig fram við yfirvöld. Hann mætti í dómshús í Manhattan rétt í þessu þar sem honum var fagnað af stuðningsmönnum. Meðlimir leyniþjónustunnar fylgdu honum á staðinn. Hann hefur nú formlega verið handtekinn, en hann er fyrsti bandaríski forsetinn sem er ákærður fyrir brot gegn hegningarlögum.
BBC greinir frá því að nú fari handtökuferlið í gang og mun Trump þurfa að gefa fingrafarasýni og þarf að fara í hefðbundna pappírsvinnu. Lögmenn Trump hafa þó sagt að ekki standi til að Trump verði handjárnaður enda er honum fylgt af leyniþjónustumönnum og því þykir ólíklegt að hann reyni að flýja. Mun hann vera leiddur fyrir dómara þar sem hann mun lýsa yfir sekt eða sakleysi. Verður svo metið hvort að málinu eigi að vísa frá eða hvort aðalmeðferð verður bókuð. Lögmenn Trump hafa gefið út að hann muni lýsa yfir sakleysi.
Uppfært: 19:00 – Trump hefur lýst sig saklausan af 34 ákæruliðum. Leynd hefur verið aflétt af ákærunni og er reiknað með að fyrstu fréttir erlendra fjölmiðla upp úr henni birtist von bráðar.
Uppfært: 19:37 – Trump hefur nú yfirgefið dómshúsið og er frjáls ferða sinna. Reiknað er með að hann haldi aftur til Flórída. Hann ávarpaði ekki fjölmiðla þegar hann yfirgaf dómshúsið en reiknað er með að hann muni ávarpa stuðningsmenn sína þegar hann er kominn aftur til Flórída.
Þær sakir sem á Trump eru bornar flokkast sem brot í flokki E, en um er að ræða minniháttar brot þar sem hámarksrefsing er fjögurra ára fangelsisvist. Er honum gert að sök að hafa falsað viðskiptagögn og í ákæru segir að hann hafi tekið þátt í ólöglegu samsæri til að grafa undan heilindum forsetakjörsins árið 2016. Hafi hann tekið þátt í að fela neikvæðar upplýsingar, þeirra á meðal 18 milljón króna greiðslu til klámleikkonunnar Stormy Daniels sem Trump er sakaður um að hafa fyrirskipað svo þær upplýsingar kæmu ekki fyrir augu kjósenda.
Er Trump sakaður um að hafa í 34 tilvikum átt við bókhaldsgögn til að fela greiðslurnar.
Í tilkynningu sem embætti héraðssaksóknara í Manhattan hefur sent frá sér segir að meint brot Trump hafi verið liður í því að auka líkurnar á að hann næði kjöri. Hafi verið gengið langt til að fela þessa glæpi, brot gegn kosningalögum, og í því ferli hafi hann reynt að brjóta bæði lög ríkisins sem og lög sem varða sambandsríkið Bandaríkin í heild.
Haft er eftir Alvin Bragg, héraðssaksóknara: „Ákæruvaldið í New York heldur því fram að Donald J. Trump hafi ítrekað og svikulum hætti falsað gögn um viðskipti sín í New York til að hylma yfir glæpi sem földu skaðlegar upplýsingar frá kjósendum í forsetakosningunum árið 2016.“
Hann bætti við að í Manhattan sé einn stærsti viðskiptamarkaður í Bandaríkjunum og það megi ekki líða það að fyrirtæki þar falsi bókhaldsgögn til að fela glæpsamlega hegðun. Slóð peninga og lyga sýni mynstur sem ákæruvaldið meinar að brjóti gegn grundvallar reglum New York um viðskipti. Ætli embættið með málinu að gangast við þeirri ábyrgð sinni að allir séu jafnir andspænis lögum.
Greiðslurnar sem eru sagðar hafa verið faldar varða meira heldur en greiðsluna til Stormy. Til að mynda hafi Trump greitt rúmar fjórar milljónir til dyravarðar sem hafi starfað í Trump Turninum sem kvaðst vita til þess að Trump ætti óskilgetið barn.
Hann hafi eins greitt tæpa 21 milljón til konu sem sagðist hafa haft samfarir við Trump.
Trump hafi sent lögmanni sínum skipanir um greiðslurnar, til dæmis að nota fyrir þær skúffufyrirtæki til að fela slóðina. Hafi lögmaðurinn sjálfur greitt Stormy Daniels og Trump svo endurgreitt honum með mánaðarlegum greiðslum úr sjóði sínum sem og af sínum eigin bankareikningi. Alls hafi verið gefnar út 11 ávísanir sem hafi verið gefnar út á fölskum forsendum. Hafi Trump sjálfur undirritað níu þeirra. Hafi þær svo verið dulbúnar sem greiðslur fyrir lögfræðiþjónustu á grundvelli samkomulags sem aldrei var til.
Rannsókn málsins má rekja til héraðssaksóknara í Manhattan, Alvin Bragg, sem rannsakaði þagnargreiðslur til tveggja kvenna sem hafa haldið því fram að þær hafi átt í kynferðislegu sambandi við Trump. Trump hefur þó neitað því að slíkt hafi átt sér stað.
Næsta þinghald í málinu verður í desember.
Dómari hefur hafnað beiðni fjölmiðla um að fá að sýna frá því í beinni þegar Trump verður leiddur fyrir dómara.
Trump nýtti ekki tækifærið til að ræða við fjölmiðla sem voru samankomnir fyrir utan dómshúsið en fjölmiðlar fylgdust náið með Trump á leið sinni á vettvang með fréttaþyrlum sem myndaði bílalestina sem fylgdi honum.
Trump mun þurfa að svara fyrir minnst þrjátíu ákæruliði en málið má rekja til þagnargreiðslu sem mun hafa verið greidd til klámstjörnunnar Stormy Daniels nokkrum dögum áður en hann var kjörinn forseti Bandaríkjanna árið 2016. Talið er líklegt að Trump verði kærður fyrir að hafa átt þátt í að hylma yfir þá greiðslu.
Lögmaður Trump á þeim tíma, Michael Cohen, hafði milligöngu um þagnargreiðsluna en um var að ræða um 18 milljónir króna. Hefur Cohen verið sakfelldur fyrir sinn þátt í málinu.
Trump hefur kallað ákæruna pólitískar ofsóknir og um sé að ræða tilraun til að koma í veg fyrir að hann bjóði sig fram til embættis forseta Bandaríkjanna að nýju. Trump hefur einnig gagnrýnt að málið sé rekið í New York en telur hann miklar líkur á því að þar muni hann ekki hljóta réttláta málsmeðferð.
Það er svo dómarinn Juan Manuel Merchan sem fær þann heiður að vera fyrsti dómarinn til að taka fyrir mál þar sem fyrrum forseti Bandaríkjanna er sakborningur. Trump var ekki ýkja hrifinn þegar honum var ljóst að Merchan væri með málið en hann segir að dómarinn hati hann.
Trump birti færslu á samfélagsmiðlinum Truth Social á leið sinni í dómshúsið. Þar sagði hann aðstæðurnar Súrealískar.
„Á leiðinni til Neðri Manhattan, í dómshúsið. Virðist svo súrealískt – VÁ, þau ætla að HANDTAKA MIG. Trúi ekki að þetta sé að gerast í Bandaríkjunum. MAGA.“