Elva Júlíusdóttir er 42 ára Hafnfirðingur og tveggja barna móðir. Hún er nýjasti viðmælandi hlaðvarpsins Sterk saman.
Elva á þrjá bræður, tvo eldri og einn tíu árum yngri. Hún ólst upp við mikla ást og umhyggju á góðu og stabílu heimili.
Mjög ung fór hún að finna fyrir vanlíðan innra með sér, hún var óánægð með útlit sitt og leið oft illa án nokkurra ástæðna.
Sjálfsskaði frá unga aldri
„Ég man eftir mér átta eða níu ára gamalli inni á baði að klípa mig alla og hugsa að það væri betra ef ég væri ekki til,“ segir hún og bætir við að þarna strax hafi sjálfsskaði verið byrjaður.
Elva er, að eigin sögn, kviða- og þráhyggjubolti sem hefur frá barnsaldri haft mjög skakka mynd af sjálfri sér.
„Ég lenti aldrei í neinu sem ætti að útskýra þetta nefnilega. Ég var jú einu sinni tekin af barnaníðingi inn í hús en bróðir minn bjargaði mér, hann náði ekki að gera mér neitt. Það er gott að eiga svona stóra bræður, en hann var samt bara svona sex ára þarna.“
Dauðsfall vinkonu
Á unglingsárunum fór Elva að drekka eins og aðrir unglingar á þeim tíma en braut aldrei reglur um útivistartíma eða annað sem foreldrar hennar settu.
Það sem breytti lífi hennar mikið var áfall sem hún og allir í kringum hana lentu í þegar hún var 17 ára.
„Þegar ég var 17 ára var ég ein heima, foreldrar mínir voru úti á landi og við ætluðum fjórar vinkonur að gista saman heima hjá mér. Það var Eurovision og Páll Óskar var að keppa. Við fórum í partý og vorum að drekka, við fórum tvær heim á undan en hinar tvær héldu áfram að drekka.
Það varð svo slys og önnur þeirra sem varð eftir drukknaði og dó,“ segir Elva og bætir við að þetta hafi verið hrikalega erfiður tími.
„Ég fór strax að hugsa um alla hina, það var engin áfallahjálp eða neitt svoleiðis. Foreldrar mínir fengu allann vinahópinn heim til okkar og ég hafði miklar áhyggjur af foreldrum vinkonu minnar sem dó en gleymdi mér alveg“.
Fór að drekka allar helgar
Elva var send norður til ömmu sinnar og afa í verndað umhverfi og þessir hræðilegu atburðir ekki ræddir, eins og tíðarandinn var.
„Ég kom til baka og var ekki tilbúin að takast á við sorgina. Ég fór að vinna mikið og á bar um helgar þar sem ég kynntist fólki sem var í neyslu. Ég fór að drekka allar helgar og meira til. Þar kynntist ég barnsföður mínum og verð ólétt ekki löngu síðar.“
Sonur Elvu er stundum kallaður Herra Reykjavík, í gamni, því þegar hún var orðin ólétt af honum er henni boðið að taka þátt í fegurðarsamkeppni, sem er risastór viðurkenning fyrir litlu óöruggu stelpuna sem hún var alltaf.
„Ég tók þátt en komst svo að því að ég væri ólétt og var mjög veik á meðgöngunni, ældi allan tímann, var með litla kúlu og fékk stanslaus hrós fyrir það.“
Bulimía í þrettán ár
Hún segir frá atviki sem kom upp einhverju eftir að sonur hennar fæddist að einhver nefndi við hana að hún hafi bætt aðeins á sig, sem hefði átt að vera eðlilegt, verandi búin að kasta upp í níu mánuði.
„Ég tók meðvitaða ákvörðun þegar sonur minn var sjö mánaða að fá búlimíu og fór að framkalla uppköst. Sá sjúkdómur átti mig alla í 13 ár. Eftir að hafa tekið þessa ákvörðun og byrjuð að kasta upp butjaði fólk aftur að hrósa mér, sem er hrikalegt og eins og vítamínsprauta fyrir þennan sjúkdóm.“
Átröskun er alvarlegur sjúkdómur sem hagar sér eins og alkahólismi. Fólk sem þjáist af átröskunum er í samskonar feluleik og líf þeirra stjórnast af sjúkdómnum.
Í tilfelli Elvu snerust bústaðarferðir og útilegur með fjölskyldunni um það hvar klósettið væri staðsett.
„Ef klósettið var á óhentugum stað þar sem heyrðist vel fram, þar sem aðrir voru, var ferðin í bústaðinn ónýt og ég mjög slæm í skapinu. Ég var í feluleik, alveg eins og alkahólisti felur neysluna sína, í 13 ár.“
Skipti um fíkn
Eftir þessi þrettán ár og bíltúr með pabba sínum sem endaði á geðdeild náði Elva einhvers konar botni og fór í meðferð við átröskuninni hjá Hvíta bandinu og gekk það vonum framar.
„Ég drakk ekki dropa af áfengi á meðan ég var í þessari meðferð en datt í það daginn sem ég útskrifaðist og við tók þriggja daga fyllerí, það þurfti að halda upp á þetta.“
Það tók ekkert við eftir þessa meðferð svo Elva skipti í raun um fíkn og fór yfir í hugbreytandi efni. Það átti enn eftir að vinna í grunninum, því sem hún var að flýja, vanlíðanina sem alltaf truflaði hana.
Alkahólisminn ágerðist og segir hún frá því hvernig hún fann sinn botn fyrir um fjórum árum þegar manneskja hringdi bjöllunni hjá henni sem aldrei hafði gert það áður og tók hana heim til sín þegar hún var búin að skrifa kveðjubréf og var við það að taka eigið líf.
Það má hlusta á viðtalið við Elvu Júliusdóttur í heild sinni í hlaðvarpinu Sterk saman.