Titringur er sagður vera innan Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, vegna aðalfundar félagsins í kvöld.
Þá má vænta þess að harður slagur verði um embætti formanns félagsins en þar takast á Júlíus Viggó Ólafsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri sambands íslenskra framhaldsskólanema og Páll Orri Pálsson, meistaranemi í lögfræði.
Fréttavefur Hringbrautar birti í dag frétt um formannsslaginn og hvatningu sem birtist í Snapchat-hópi á vegum Páls Orra í síðustu viku.
„Páll Orri er að bjóða sig fram í formann Heimdallar
Kosið er á mánudaginn 3. apríl kl. 20:30 í Valhöll – hægt er að skrá sig í flokkinn á xd.is. Þarf að breyta lögheimili, tekur 1 mín, á skra.is
Breyta í þetta heimilisfang
[…]
BESTI PARTURINN við að gera þetta einfalda concept. Beer á Skugga á föstudaginn!“
Hringbraut hefur eftir heimildarmanni sínum að meðlimir í umræddum Snapchat-hópi séu margir hverjir aðeins 16-17 ára gamlir. Þá er bent á að heimilisfangið sem er gefið upp er heimilisfang einstaklings sem er í stjórnarframboði Páls Orra.
Í fréttinni er rifjað upp að oft séu mikil átök um völdin í Heimdalli eða SUS og þau rati gjarnan í fjölmiðla. Þannig séu fræg SUS-þingin þar sem flugvélafarmar af atkvæðum hafa verið fluttir á kjörstað og fulltrúar framboða hafi mætti með seðlabúnt til að greiða félags- og fundargjöld fyrir hópinn.
„Maður veit að það er komið vor þegar heyrist í lóunni og ungir sjálfstæðismenn bjóða upp á lögheimilisskipti og bjór fyrir fyrir ungmenni,“ hefur Hringbraut eftir einum viðmælanda.