Íslenski landsliðsmaðurinn Hákon Arnar Haraldsson, leikmaður FC Kaupmannahafnar í Danmörku hefur verið valinn besti leikmaður marsmánaðar í dönsku úrvalsdeildinni. Frá þessu var kunngert á samfélagsmiðlareikningum dönsku úrvalsdeildarinnar fyrr í dag.
Auk þess var Hákon Arnar valinn besti ungi leikmaður mánaðarins í deildinni en Skagamaðurinn ungi fór á kostum í liði FC Kaupmannahafnar í mánuðinum sem nú er að líða.
FC Kaupmannahöfn vann alla leiki sína í dönsku úrvalsdeildinni í mars og Hákon Arnar var á skotskónum í þeim öllum, skoraði þrjú mörk, gaf eina stoðsendingu og skapaði þrjú dauðafæri.
Hákon Arnar er aðeins 19 ára gamall og mesta efni íslenskrar knattspyrnu um þessar mundir, hann hefur nú þegar unnið sér leið inn í byrjunarlið íslenska landsliðsins sem og FC Kaupmannahafnar þar sem að hann á að baki 46 leiki og hefur í þeim leikjum skorað níu mörk og gefið sjö stoðsendingar.
FC Kaupmannahöfn er sem stendur í 2. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar með 42 stig, einu stigi á eftir Nordsjælland sem situr á toppi deildarinnar.
Dobbelt op på islandsk magi 🪄🇮🇸
F.C. Københavns islandske landsholdsspiller Hákon Haraldsson løber med titlen som både Månedens Spiller og Månedens Unge Spiller i marts 🏆🏆#sldk pic.twitter.com/lZ4uBjfADg
— 3F Superliga (@Superligaen) March 30, 2023