Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag og hefur eftir Tryggva Helgasyni, sérfræðingi í barnalækningum og offitu barna og umsjónarmanni offitulækninga barna hjá Barnaspítalanum, að í hans huga séu lyfin ekki megrunarlyf, þau virki á þyngdarstjórnunarkerfi líkamans. „Ef það er verið að beita þeim á fólk sem er ekki með offitu heldur nokkur aukakíló sem það vill losna við, þá er það misbeiting á þessum lyfjum ef þú spyrð mig,“ er haft eftir Tryggva.
Hann sagði að margir, sem glíma við offitu, fái ekki meðferð og hugsanlega þurfi að nota þessi lyf í meira mæli en nú er gert.
Hann sagði þetta fyrstu lyfin í þessum lyfjaflokki sem hafa áhrif á seddustjórnunarkerfið. Eftir nokkur ár verður umræða um þessi lyf sem megrunarlyf ekki lengur til staðar að mati Tryggva.
Offita barna hefur aukist á síðustu áratugum og segir Tryggi samfélagsbreytingar aðalástæðuna fyrir þessu. Fólk sæki meira í kyrrsetuafþreyingu, aukin pressa sé á að vera með stuttan matartíma og hálftilbúinn eða altilbúinn mat. „Minni tími fjölskyldunnar með börnum og minni svefn. Allt eru þetta þekktar orsakir sem valda aukinni offitu,“ sagði Tryggi.