Erling Braut Haaland er til rannsóknar hjá lögreglunni í Manchester eftir að hafa ekið um götur borgarinnar í símanum á dögunum.
Atvikið átti sér stað daginn eftir að stjarnan unga skoraði fimm mörk fyrir Manchester City gegn RB Leipzig í Meistaradeild Evrópu.
Norski framherjinn keyrði um á rándýrri Rolls-Royce bifreið sinni og mátti sjá greinilega að hann horfði í símann.
Refsingin fyrir að nota síma undir stýri í Bretlandi er almennt 200 punda sekt og sex punktar í ökuskírteinið.
Það er spurning hvort Haaland fái refsingu, en lögreglan skoðar málið.
Haaland gekk í raðir City í sumar frá Borussia Dortmund. Hann hefur verið hreint stórkostlegur fyrir félagið og raðað inn mörkum.
Fái hann sekt er ljóst að hann mun ekki eiga í miklum vandræðum með að borga hana. Haaland þénar um 375 þúsund pund á viku.