fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fréttir

Rannsóknarlögregla og starfsmenn tæknideildar lýstu aðkomunni í Barðavogi

Erla Dóra Magnúsdóttir
Miðvikudaginn 29. mars 2023 18:00

Magnús Aron Magnússon

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Aðalmeðferð hófst í dag í Barðavogsmálinu svokallaða en þar er Magnúsi Aroni Magnússyni gefið að sök að hafa veist að nágranna sínum, Gylfa Bergmann Heimissyni, með ofbeldi þann 4. júní á síðasta ári, með þeim afleiðingum að Gylfi lét lífið.

Magnús hefur neitað að hafa haft ásetning til þess að bana Gylfa.

Áður hefur verið gerð grein fyrir skýrslu sem Magnús Aron veitti fyrir dómi í dag sem og vitnisburði nágranna hans og lögreglumanna sem komu að málinu.

Næst til að bera vitni var rannsóknarlögreglumaður hjá miðlægri rannsóknardeild sem hélt utan um rannsóknina. Hann greindi frá því að hann hafi komið á vettvang eftir að Magnús hafi verið handtekinn. Hafi hann farið inn í húsið í Barðavogi og sér þar greinileg merki um átök. Inn í risíbúðinni, þar sem Magnús bjó, hafi þó ekki verið merki um átök.

Fyrir utan sá rannsóknarlögreglumaðurinn Gylfa liggjandi í minnir honum að það hefðu verið töluverðir áverkar á andliti hans og töluvert af blóði í kringum hann. Magnús hafi svo verið yfirheyrður um kvöldið og hafi það gengið vel. Hafi Magnús verið allsgáður, kurteis og framburður hans skýr. Ekki hafi neitt óeðlilegt blasað við varðandi geðrænt ástand Magnúsar.

Blóðpollur við hinn látna

Næst bar vitni starfsmaður hjá tæknideild sem var kölluð út á vettvang. Hún greindi svo frá því að mikil merki hafi verið um átök í stigagangi.

„Það voru merki um átök inn á sameiginlega stigaganginum sem er á milli miðhæðar og risíbúðar. Þar voru ummerki um átök, fatahengi á hliðinni, brotinn myndarammi og blóðkám og svona slettur á ganginum.“

Hún fór inn í risíbúðina og segir að þar hafi verið blóðkám fyrir utan innganginn en ekki var neitt slíkt að finna inn í íbúðinni sjálfri. Á útidyrahurðinni, út af stigaganginum, hafi fundist smá blóð, en þó ekki mikið. Úti, í kringum hinn látna, hafi verið blóðslettur og í grasinu þar sem hann lá var blóðpollur. Lýsti hún því svo að þar sem höfuð Gylfa hafi legið hafi verið dæld í grasinu og ofan í henni mikið blóð.

„Þetta er ekki eins og hver önnur dæld heldur eins og mótað fyrir höfði,“ sagði hún og bætti við að það bendi til að miklu afli hafi verið beitt.

Seinastur til að bera vitni í dag var sérfræðingur við tæknideildina sem sér um rannsóknir á lífsýnum. Staðfesti hann að fjöldi sýna hafi verið tekinn af Magnúsi sjálfum, af vettvangi, af hinum látna og svo af fatnaði Magnúsar. Var í þeim sýnum erfðaefni Gylfa í meirihluta.

Þar með lauk fyrsta degi í aðalmeðferðinni. Magnús Aron lýsti því sjálfur fyrir dómi í dag að hann hafi rotað Gylfa, en hélt því þó fram að þá hafi hann hætt atlögu sinni. Var þessi lýsing ekki í samræmi við framburð Magnúsar á fyrri stigum málsins og þess til stuðnings var spiluð upptaka úr búkmyndavél lögreglumanns í dómsal þar sem sjá mátti Magnús, í fangaklefa, lýsa því hvernig hann hefði haldið ofbeldinu áfram eftir að Gylfi var kominn í jörðina. Lýsti nágranni, sem varð vitni að atlögunni, því fyrir dómi að hann hafi séð Magnús veitast að Gylfa eftir að hann var kominn í jörðina og hafi nágranninn áttað sig á því að staðan væri alvarleg og beðið konu sína að hafa samband við bæði lögreglu og sjúkrabíl. Annar nágranni bar einnig vitni, en sá bjó í sama húsi í Barðavogi og Magnús og Gylfi. Hann var ekki á staðnum þegar Gylfi lét lífið en greindi frá því hvernig Magnús hafi kýlt hann í andlitið deginum fyrr. Hafi nágranninn óttast Magnús í kjölfarið og greint Gylfa frá árásinni og sagt honum að staðan væri alvarleg. Taldi nágranninn líklegt að Gylfi hefði ákveðið að ræða atvikið við Magnús til að reyna að leysa málið með friðsömum hætti. Hafði hann þó hvatt Gylfa til að gera slíkt ekki.

Þó nokkrir lögreglumenn báru einnig vitni í dag og greindu nokkrir þeirra frá því að þeim hafi þótt athugavert hversu rólegur Magnús var í kjölfar árásarinnar.

Sjá einnig: Rafmagnað andrúmsloft við aðalmeðferð í Barðavogsmálinu – „Ég var illa sofinn ég man það, ég var þreyttur afar þreyttur“
Sjá einnig: Magnús réðst á annan nágranna kvöldið áður sem upplifði ofsahræslu og íhugaði að flytja – „Mamma læsti bara bílnum þegar hún sá hann“
Sjá einnig: Lögreglu þótti Magnús vera óeðlilega rólegur – „Það sat svolítið í mér þetta orð“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Allir mættu nema Mbappe
Fréttir
Í gær

Sveitarstjórn í Gran Canaria ríður á vaðið og setur á ferðamannaskatt – Tekur gildi eftir áramót

Sveitarstjórn í Gran Canaria ríður á vaðið og setur á ferðamannaskatt – Tekur gildi eftir áramót
Fréttir
Í gær

Ingólfur Kjartansson dæmdur í átta ára fangelsi

Ingólfur Kjartansson dæmdur í átta ára fangelsi
Fréttir
Í gær

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“