Starf Janne Andersson með sænska karlalandsliðið er talið í hættu. Því var velt upp í hlaðvarpsþættinum Dr. Football hvort KSÍ ætti ekki að taka upp tólið og bjóða honum íslenska landsliðsþjálfarastarfið ef hann verður laus.
Andersson reifst harkalega við sænskan fjölmiðlamann, Bojan Djordjic, eftir sannfærandi 5-0 sigur á Azerbaíjan um helgina.
Djordjic, fyrrum leikmaður Manchester United, ásamt öðrum sérfræðingum Viaplay, fékk Janne til sín í sett eftir umræddan landsleik og vildi Bojan fá svör við spurningum tengdum vali Janne á fyrirliða liðsins sem og litlum spilatíma Jesper karlsson. Þá sauð allt upp úr.
„Ef það væri faglegt starf í kringum landsliðið, væri Janne Andersson ekki á blaði hjá okkur?“ spyr Hjörvar Hafliðason í hlaðvarpsþætti sínum, Dr. Football.
Hrafnkell Freyr Ágústsson tók í sama streng. „Þetta er gæi sem myndi henta okkur fullkomlega ef maður horfir á hvernig sænska landsliðið er búið að spila undanfarin ár.“
„Það stendur Ísland á enninu á honum,“ skaut Hjörvar inn í.
Það er áfram pressa á landsliðsþjálfaranum Arnari Þór Viðarssyni eftir landsleiki Íslands á dögunum. Liðið vann Liechtenstein 7-0 á sunnudag en hafði þar áður tapað illa, 3-0 gegn Bosníu-Hersegóvínu.
„Nú þegar rykið er farið að setjast hugsar maður: Þetta var flottur sigur á móti Liechtenstein, fyrirliðinn var glæsilegur en maður getur ekki horft framhjá frammistöðunni í Bosníuleiknum án þess að velta fyrir sér hvað Arnór Ingvi Traustason var að gera í sexunni,“ segir Hjörvar.
„Hvað er í gangi þarna? Hafsentarnir í þessum leik segja ekki orð. Þú ert með fullvaxta karldýr í hægri bakverðinum. Þú vilt hafa stóru kallana þína fyrir miðju. Þetta er mjög skrýtið.“
Hrafnkell furðaði sig einnig á ákvörðun Arnars um að hafa Arnór Ingva einan djúpan á miðju gegn Bosníu.
„Ég hélt að það yrði einhver með honum. Þetta er það sturlaðasta sem ég hef séð.“