Forráðamenn Liverpool hafa enn ekki opnað á viðræður við James Milner, einn reynslumesta leikmann liðsins, um nýjan samning þrátt fyrir að knattspyrnustjórinn Jurgen Klopp vilji ólmur halda honum. Frá þessu greinir The Athletic í kvöld.
Núverandi samningur þessa 37 ára gamla miðjumanns rennur út eftir yfirstandandi tímabil en Milner er í miklum metum hjá Klopp sem og stuðningsmönnum Liverpool.
Þó svo að búast megi við því að miðja Liverpool muni taka miklum breytingum milli keppnistímabila vill Klopp halda í Milner og horfir þá helst í reynslu leikmannsins, leiðtogahæfileika sem og hversu margar stöður hann getur leyst. Klopp vill nýta krafta Milner í eitt tímabil í viðbót.
Sjálfur ætlar Milner sér að halda atvinnumannaferlinum áfram og vill hann helst gera það hjá Liverpool og spila sitt níunda keppnistímabil fyrir félagið. Hins vegar hafa engar viðræður átt sér stað á þessu ári.
Milner á að baki 321 leik fyrir Liverpool en hann gekk til liðs við félagið á frjálsri sölu frá Manchester City árið 2015. Hann á að baki yfir 600 leiki í ensku úrvalsdeildinni og næsti leikur hans fyrir Liverpool í deildinni mun sjá til þess að hann jafnar leikjafjölda Frank Lampard sem er jafnframt þriðji mesti leikjafjöldi leikmanns í ensku úrvalsdeildinni.