Ómar Guðmundsson er fertugur Hafnfirðingur, tveggja barna faðir sem á stóra áfalla- og batasögu. Hann er nýjasti viðmælandi hlaðvarpsins Sterk saman.
Ómar var hress og vel virkur strákur sem passaði ekki inn í kassann sem skólakerfið vill setja alla inn í. Í fyrsta bekk var hann lagður í einelti en skipti um skóla strax í öðrum bekk og snerust hlutverkin við þá.‟
Lagði aðra i einelti
„Ég var alltaf minnstur og mikil læti í mér og svona. Ég lagði í einelti í gegnum mína skólagöngu og hef beðið fólk afsökunar í dag eftir að ég varð edrú. Eineltið sem ég lenti í sat alltaf í mér samt.‟
Þegar Ómar var 11 ára skildu foreldrar hans og var skilnaðurinn ljótur.
„Ég varð eftir hjá pabba en systur mínar fóru með mömmu. Ég gat ekki hugsað mér að pabbi yrði einn eftir. Hann datt í mikið þunglyndi og ég man að ég vissi aldrei hvernig staðan yrði þegar ég kom heim á daginn. Í alla vega tvö skipti reyndi hann að svipta sig lífi og ég fann kveðjubréf á borðinu þegar ég kom heim úr skólanum.‟
Þegar Ómar fermdist var pabbi hans á geðdeild svo hann fékk að heimsækja hann um kvöldið en þessir hlutir voru ekki ræddir.
„Ég var bara reiður og erfiður en sagði engum neitt, þetta var svo mikil skömm.‟
Neyslan strax mikil
Fimmtán ára byrjaði Ómar að drekka áfengi og strax fór hann að drekka illa, það fylgdi drykkjunni ofbeldi, vesen og alltaf var drukkið of mikið en þrátt fyrir það varð neyslan strax allar helgar.
Ólöglegu vímuefnin bættust við um 17 ára aldur. Lífið snerist meira og minna um neyslu, hann eignaðist tvö börn með fyrrverandi konu sinni en þau kynntust þegar hann var 15 ára.
„Ég sá það auðvitað bara eftir á að þegar við fórum í bústað eða til Spánar eða eitthvað með börnin þá þurfti ég alltaf að eiga bjór og sötraði allan daginn, ‟ segir hann og bætir við að hann skilji ekki hvernig barnsmóðir hans hafi geta verið með honum svona lengi.
Þegar leiðir þeirra skildu og hún fékk nóg urðu kaflaskil í neyslu Ómars. Hann breytti neyslunni og bætti töluvert í.
Smyglaði efnum innvortis
Auk þess fór hann að flytja inn efni og rækta. Hann segir sögu af einni ferðinni sem hann og félagi hans fóru út til að sækja efni:
„Hann fór degi á undan mér heim. Þegar kom að því að ég ætlaði að kyngja draslinu kúgaðist ég auðvitað bara því maður var ekki búinn að borða né sofa í marga daga.
Ég man svo bara hvað mér var drullusama um allt. Ég var með bakpoka og poka úr H&M fyrir dóttur mína en svo var ég stoppaður í tollinum.‟
Ómar segir frá fullkomnu tilfinningaleysi þar sem hann sat með efnin innvortis og setti skilyrði þegar hann samþykkti að fara í röntgenmynd þar sem hann var grunaður um innflutning.
Eftir það var honum sleppt.
Þakkar systrum sínum lífgjöfina
Þrátt fyrir að litlu munaði að hann næðist í þetta skiptið liðu ekki nema þrjár vikur þar til hann fór í næstu ferð. Margt gekk á áður en Ómar náði svokölluðum botni en hann segir að hann eigi systrum sínum líf sitt að þakka.
Í dag hefur hann verið í bata frá vímuefnavanda í rúmlega fimm ár og ákvað að ráðast á rót vandans, leita til sálfræðings sem einnig er menntaður á sviði fíknar og vinna með áföllin, reiðina og það sem fékk hann til að nota til að byrja með.
„Ég hef lent í áföllum eftir að ég varð edrú og ég er þakklátur fyrir að hafa til dæmis geta stutt mömmu mína í gegnum það að missa manninn sinn en við töluðum ekki saman í átta ár.‟
Það má hlusta á viðtalið við Ómar Guðmundsson í heild sinni í hlaðvarpinu Sterk saman.