Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Liechtenstein
Andstæðingur íslenska karlalandsliðsins í undankeppni Evrópumótsins 2024 í dag, Liechtenstein, er langt frá því að vera svo sterkasti. Liðið hefur ekki unnið fótboltaleik síðan haustið 2020.
Strákarnir okkar þurfa að svara fyrir afhroð í Bosníu-Hersegóvínu á fimmtudag með sannfærandi frammistöðu og öruggum sigri í Liechtenstein í dag. Tap eða jafntefli yrði sannkallað stórslys.
Andstæðingur Íslands hefur nefnilega tapað 14 leikjum í röð og ekki unnið í 26 leikjum í röð. Síðasti leikur Liechtenstein tapaðist 4-0, gegn Portúgal.
Síðasti sigur Liechtenstein kom gegn Lúxemborg í október 2020. Þá vann liðið 2-1 sigur í vináttuleik. Liðið hefur nú skorað eitt mark í síðustu fjórtan leikjum sínum.
Þá er Liechtenstein númer 198 á styrkleikalista FIFA. Strákarnir okkar eru til samanburðar númer 63, hafa oft verið hærra.
Þjálfari heimamanna í dag er Rene Pauritsch. Hann er þó aðeins til bráðabirgða. Eftir að Martin Stocklasa yfirgaf landsliðið til að taka við Vaduz var ákveðið að Pauritsch myndi stýra Liechtenstein gegn Portúgal og Íslandi.
Leikmenn Liechtenstein spila flestir hverjir í heimalandinu en þó er töluvert af þeim á mála hjá liðum í neðri deildum nágrannalandanna, Austurríki, Sviss og Þýskalandi.