Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Liechtenstein
Það er komið að leikdegi í Liechtenstein, þar sem íslenska karlalandsliðið mætir heimamönnum í öðrum leik sínum í undankeppni Evrópumótsins 2024.
Illa fór í fyrsta leik keppninnar gegn Bosníu-Hersegóvínu. 3-0 tap varð niðurstaðan og frammistaða Strákanna okkar allt annað en sannfærandi.
Það má búast við allt öðruvísi leik í dag. Liechtenstein er með lakari landsliðum heims og allt annað en þægilegur sigur íslenska liðsins í dag yrðu vonbrigði.
Það er ansi líklegt að einhverjar breytingar verði á byrjunarliðinu. Það má búast við því að landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson komi inn í liðið, en hann var í banni gegn Bosníu.
Hann hefur verið að spila í miðverði undanfarið og kemur hann líklega þangað inn fyrir Daníel Leó Grétarsson.
Guðlaugur Victor Pálsson var í hægri bakverði gegn Bosníu en gæti færst um stöðu í dag.
Líklegt byrjunarlið Íslands
Rúnar Alex Rúnarsson
Alfons Sampsted
Aron Einar Gunnarsson
Hörður Björgvin Magnússon
Davíð Kristján Ólafsson
Guðlaugur Victor Pálsson
Jóhann Berg Guðmundsson
Hákon Arnar Haraldsson
Arnór Sigurðsson
Jón Dagur Þorsteinsson
Alfreð Finnbogason
Leikur Liechtenstein og Íslands hefst klukkan 16 í dag að íslenskum tíma.