Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Liechtenstein
Aron Einar Gunnarsson viðurkennir að það hafi verið erfitt að horfa upp á tap íslenska landsliðsins gegn Bosníu-Hersegóvínu á fimmtudag úr stúkunni og geta ekkert gert til að hjálpa liðsfélögum sínum.
Ísland tapaði 3-0 og stóð sig alls ekki vel. Aron Einar var í banni í leiknum.
„Maður sér leikinn aðeins öðruvísi. Það var virkilega erfitt að geta ekki verið inni á vellinum, stjórnað og skipulagt. Það er það sem ég er góður í,“ sagði landsliðfyrirliðinn á fréttamannafundi hér í Liechtenstein í dag.
Íslenska liðið hélt fund í gær og skildi þannig við leikinn.
„Við fórum vel yfir leikinn í gærkvöldi og greindum hann. Það var jákvætt. Við töluðum vel saman. Það var slatti af hlutum sem við þurfum að gera betur.“
Á morgun mætir Ísland Liechtenstein og segir Aron Einar að hugur leikmanna sé kominn á þann leik.
„Þetta snýst allt um hvernig við bregðumst við þessu slæma tapi.“