Tim Sherwood, fyrrum leikmaður Tottenham og enska landsliðsins, telur að West Ham þurfi að losa Declan Rice í sumar.
Rice verður samningslaus sumarið 2024 en hann er einn allra besti miðjumaður ensku úrvalsdeildarinnar og er 24 ára gamall í dag.
Sherwood telur að West Ham þurfi að fá pening fyrir Rice í sumar áður en félagið losnar við hann frítt en stórlið eru á eftir hans þjónustu.
,,Ég tel að hann þurfi að fara. Fyrir félag eins og West Ham, að halda honum í tímabil í viðbót og svo færðu ekkert fyrir hann. Þú getur fengið 60-80 milljónir fyrir hann, ég myndi verðmeta hann þar,“ sagði Sherwood.
,,Ef hann ætti þrjú ár eftir af samningnum þá myndirðu þurfa að borga 120 milljónir fyrir hann en það er ekki staðan.“
,,Hann hefur haldið sig hjá West Ham, hann hefur verið svo trúr félaginu en í sumar þá er tími fyrir félagið að hleypa honum burt og fá pening inn. Það myndi hjálpa þeim að fá aðra leikmenn til félagsins.“